153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

skipun í stjórnir opinberra stofnana.

[15:27]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Ég hef frá síðastliðnu hausti tekið þátt í starfi stjórnar Byggðastofnunar sem varamaður í stjórn. Ég veit ekki betur en að ég hafi lagt gott eitt til, m.a. endurskoðun á úthlutun byggðakvóta stofnunarinnar sem hefur m.a. farið til útgerða sem komnar eru upp fyrir kvótaþakið og jafnvel til erlendra auðmanna og í fjölda tilvika hefur afla ekki verið landað í þeim byggðarlögum sem byggðakvótinn hefur verið ætlaður. Um er að ræða nótulausan stuðning upp á nokkra milljarða króna árlega sem koma ekki fram í reikningum stofnunarinnar. Frá því að ég hóf afskipti af umræddri kvótaúthlutun hef ég verið boðaður sérstaklega í próf hjá Seðlabankanum vegna þess að sérstakur vafi léki á hæfi mínu þrátt fyrir að ég hafi stýrt opinberri stofnun í nokkra áratugi og hafi lokið framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu, auk þess sem ég hef setið hér á þingi, ég veit ekki hvort ég eigi að telja mér það til tekna, og í sveitarstjórn Skagafjarðar. Í sjálfu sér væri það í góðu lagi ef aðrir stjórnarmenn og varamenn stjórnar hefðu verið látnir þreyta umrætt próf en svo var ekki. Nú ber svo við að Flokkur fólksins tilnefndi mig sem aðalmann í stjórn Byggðastofnunar en það var ekki virt af núverandi innviðaráðherra heldur var ég gerður að varamanni á ný, þvert á vilja flokksins. Skýringar ráðherra voru að ég hefði verið gerður varamaður vegna reglna um kynjahlutföll í stjórn stofnunarinnar. Með öðrum orðum, það er verið að misnota lög um jafna stöðu kynjanna. Þetta inngrip án nokkurs samráðs við Flokks fólksins lyktar óneitanlega af misnotkun og valdhroka. Það sem undirstrikar það er að aðrar skipanir ráðherra á karlmönnum eru verulega umdeildar og ég hef vakið athygli Fjármálaeftirlitsins á því. Mér finnst það sárt að við skulum vera hér að ræða þessi mál og að menn sýni svona valdhroka við skipan stjórna opinberra stofnana og sýni ekki meiri auðmýkt.