Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[15:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þingmenn hér, taka eindregið undir þessa tillögu og það gerir þingflokkur Viðreisnar að sjálfsögðu allur. Það skiptir máli að svona yfirlýsingar séu afdráttarlausar og það sé samhugur og eindrægni á bak við svona yfirlýsingu. Það er algerlega þannig af hálfu Viðreisnar.

Ég vil einnig þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir hans frumkvæði líka, að tala skýrt þegar kemur að Úkraínu og segja að við ætlum ekki að hætta að styðja Úkraínu í hvaða málum sem er til að verja okkar lýðræði og frelsi í álfunni. Og að sjálfsögðu þarf að tala skýrt þegar kemur að þessari grófu misbeitingu Rússa á öllu því sem viðkemur stríði, ekki síst gagnvart börnum. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni nefndarinnar fyrir hans störf þegar kemur að yfirlýsingum sem tengjast Úkraínu.