Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[18:10]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og get þar af leiðandi ekki verið þátttakandi í því að leggja fram nefndarálit en ég lýsi því hér yfir að ég styð þetta mál og finnst löngu tímabært að það komi fram. Við erum með þetta mál á dagskrá eftir að Alþýðusamband Íslands lagði fram kæru fyrir fjórum árum þar sem það taldi að íslenska ríkið hefði ekki innleitt þessa tilskipun um vinnutíma á réttan hátt. Það hefur m.a. verið staðfest í dómum að margir launþegar hafa átt erfitt með að sannreyna fyrir dómstólum að þeir hafi unnið þetta og þetta mikið af óreglulegum tímum af því að það var hvergi skráð, eða vinnuveitandi hélt ekki utan um það, það var ekki til bókhald utan um þann vinnutíma sem viðkomandi hafði sinnt. Á einhverjum tímapunkti reyndi Alþýðusambandið að bregðast við þessu og setti í gang vinnu sem leiddi af sér tímaskráningarkerfi sem fékk nafnið Klukk. Þetta var búið til sem app og fólk gat sótt þetta í símann sinn eða tölvuna sína eða skráð inn vinnuveitanda og kennitölu og í hvert skipti sem fólk nálgaðist vinnustaðinn gat það stimplað sig inn í gegnum Klukk og þegar það fór heim gat það stimplað sig út og þá hafði það skráð þann vinnutíma sem það hafði innt af hendi þann tiltekna dag. Þarna var vinnuveitandi ekki með í ráðum, þetta var í raun og veru aðgerð launþegasamtaka til að bregðast við þessari stöðu. Ég veit ekkert hvort þetta myndi halda fyrir dómi vegna þess að Klukk staðfesti jú kort af vinnustaðnum en það var ekkert sannreynt af vinnuveitanda að fólk hefði verið þar inni. Eins gott og Klukk var og hjálpaði launþegum til að halda utan um vinnutíma þá þurfti annað að koma til og við erum að sjá það gerast með þeirri lagabreytingu sem hér á sér stað.

Eins og svo oft áður kemur margt gott frá Evrópusambandinu og þetta er eitt af því. Það er verið að styrkja fólk á vinnumarkaði, það eru margar tilskipanir sem hafa komið þaðan og hjálpað fólki á vinnumarkaði. Það er frábært að þetta sé að verða að veruleika. Ég get ekki annað en fagnað þessu og við heyrðum líka í umsagnaraðilum, það voru nokkrir aðilar sem skiluðu inn umsögnum. Samtök atvinnulífsins voru ekki alveg dús með að þurfa að gera þetta en ég held að þau hafi nú miklað þetta svolítið fyrir sér, að það þyrfti ekki hver og einn að vera með stimpilklukku því að flestir eru bara að vinna fastan og reglubundinn tíma og það liggur þá bara fyrir í ráðningarsamningi með hvaða hætti fólk er að vinna. En svo eru aðrir sem eru í íhlaupavinnu og koma inn á óreglulegum tíma.

Ég get líka staðfest það sem fyrrverandi formaður stéttarfélags að oft átti maður í bölvuðu basli með þetta. Eins og allir vita rauk ferðaþjónustan upp af fullum krafti og það voru ekki bara tóm góðmenni sem fóru í þann bransa og margir launþegar, oft og tíðum af erlendum uppruna, áttu bara mjög erfitt með að halda utan um þetta og átta sig á því hver kjörin voru og hvaða vinnutíma þeir áttu að skila miðað við 100% vinnu, eða áttuðu sig ekki á því hvað þeim var uppálagt að vinna, þekktu bara ekki íslenska kjarasamninga. Það var í raun og veru algjör nauðsyn á að fá þetta fram og þessa tilskipun í gegn. Þess vegna fagna ég því og tek undir það að við klárum þetta mál.