154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu að þeir aðilar sem koma til Íslands, sækja um alþjóðlega vernd og uppfylla íslensk lög og þau skilyrði sem þar eru sett um alþjóðlega vernd, svo og það sem í rauninni kemur fram í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna — það fólk fær hér vernd. Mér finnst ofboðslega mikilvægt að Ísland taki þátt í því gríðarstóra verkefni sem blasir við vestrænum heimi þegar að flóttamannavandanum kemur og þeim ofboðslega mikla fjölda fólks sem er á flótta í dag. En á sama tíma, ef við ætlum okkur að vera með regluverk í kringum þessa hluti, er auðvitað líka mjög mikilvægt að fólk fylgi þeim reglum. Þess vegna var þetta ákvæði mjög mikið rætt, þ.e. ef fólk uppfyllir ekki skilyrðin til að fá hér alþjóðlega vernd og það er niðurstaða Útlendingastofnunar — nú tek ég líka fram að Útlendingastofnun fer yfir hverja og eina umsókn og einstaklingsmiðuð nálgun á að vera þegar að því kemur að horfa til aðstæðna viðkomandi einstaklinga. Hér áðan var verið að tala um fórnarlömb mansals eða fólk sem hefði enga tengingu við eitthvert upprunaland. Ég vil treysta því að Útlendingastofnun fari vel og vandlega yfir þessar umsóknir og vandi til verka. Ef niðurstaða hennar er að viðkomandi eigi ekki rétt á að hljóta hér alþjóðlega vernd þá fara margir strax, en langflestir hafa þó nýtt sér það að bera þessa ákvörðun Útlendingastofnunar undir kærunefnd útlendingamála. Ef kærunefnd útlendingamála staðfestir úrskurð Útlendingastofnunar um að viðkomandi uppfylli ekki þessi skilyrði þá er því miður komið að þeirri niðurstöðu að viðkomandi þarf að fara af landi brott. Mér finnst það vera algjört lykilatriði að vera með opinn faðminn gagnvart þeim sem eru á flótta og þurfa á þeirri aðstoð að halda, en á sama tíma verða þeir sem ekki uppfylla þessi skilyrði að fara.

Ég ætla ekki að segja að það sé einfalt hvernig nálgast eigi þennan hóp og þetta viðfangsefni. Það er bara langt frá því að vera einfalt. Við skulum átta okkur á því að öll löndin innan Schengen, nema Ísland, eru með það sem hér hefur verið kallað búsetuúrræði eða endursendingarbúðir og hefur verið ákveðin krafa frá félögum okkar í Schengen um að gera slíkt hið sama. Ég heyri alveg það sem hér er sagt og get tekið undir að það gæti verið dýrt úrræði fyrir litla Ísland og þess vegna hef ég talað fyrir því að reyna samstarf við hin Norðurlöndin í þessum málum. Ég held þó að fólk verði að átta sig á afleiðingum þess ef Ísland, litla Ísland, ætlar með einhverjum hætti að draga sig út úr alþjóðasamfélaginu og vera með einhverjar aðrar reglur en þar gilda. Ef fólk segir: Heyrðu, þeir sem ekki uppfylla skilyrðin og fá synjun en geta ekki farið heim, sem við skulum samt sem áður draga aðeins í efa því að yfirvöld segja okkur að í raun allir sem hafa fengið synjun eigi að geta farið til síns heima — öll umræða um ferðaskilríki og annað þess háttar, ef viðkomandi er samvinnufús þá er hægt að afla ferðaskilríkja og þá getur viðkomandi aðili farið aftur til sín heima eða til þess lands sem hann kom frá. Það eru skýr svör frá yfirvöldum að svo sé. Staðan er sú að þetta er fólk sem segir: Nei, ég vil ekki. Ég ætla ekki að hlíta íslenskum lögum og reglum. Ég ætla ekki til baka. Það er sá hópur sem við erum hér að tala um. Ef fólk telur það í alvöru vera einhverja lausn á þeim málum að segja: Þetta eru svo fáir, leyfum þeim bara samt að vera, þá held ég að við séum búin að brjóta niður það kerfi sem við höfum verið að byggja hér upp. Við yrðum allt öðruvísi en öll önnur lönd í Evrópu. (ArnG: Nei, alls ekki.) Það er ekki þannig að lönd sem hafa synjað fólki um alþjóðlega vernd leyfi því bara samt að vera og gefi því svo bara dvalarleyfi og atvinnuleyfi, því að við vitum alveg hvað það þýðir. Til hvers þá að vera með regluverkið? Sleppum þá bara þessum reglum og öllum kostnaði í kringum þær og leyfum öllum að koma hingað.

Virðulegur forseti. Ég held að fólk verði að hugsa þetta til enda og það er það sem okkur hefur verið bent á. Fólk sem starfar í þessum geira er búið að benda okkur á, og við fengum mikla vitneskju um þetta í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi þegar við heimsóttum þessa aðila og fengum þá til okkar sem gesti, að það að vera með einhver séríslensk ákvæði er það sem þeir kalla í þessum heimi — fyrirgefðu, virðulegur forseti — „pull factor“, eitthvað sem getur dregið fólk í þessari aðstöðu til landsins. Það er mannúðarkrísa í Evrópu og það er sama hvert maður fer, maður horfir upp á þá sorglegu staðreynd að fólk býr á götunni. Það eru tjöld meðfram Signu í París. Fólk situr á götunum í Brussel og það er hræðilegt. Ég er algerlega sammála því að alþjóðasamfélagið þarf að taka á þessu vandamáli og verkefni, þessu fólki sem uppfyllir ekki skilyrði um alþjóðlega vernd en fer samt sem áður á milli Evrópuríkja og sækir um aftur og aftur, fær ekki búsetuúrræði og býr á götunni.

Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að finna einhverjar lausnir, en ég bið fólk um að hugsa það til enda ef það heldur að lausnin sé sú að hið litla Ísland eigi að segja: Já, komið til okkar. Ég held að það yrði algjör katastrófa að gera slíkt. Ég held að það sé þeim mun mikilvægara að við höldum vel utan um það fólk sem hingað kemur og uppfyllir skilyrði um alþjóðlega vernd. Það á að vera okkar lykilatriði að þegar við erum með regluverkið fylgi fólk þessum reglum.

En ég er líka talsmaður þess, og minn flokkur, að huga að því að opna möguleika fólks utan EES-svæðisins á því að koma til Íslands og fá dvalar- og atvinnuleyfi án þess að koma hingað og sækja um alþjóðlega vernd. Við sjáum að íslenskt samfélag þarf svo sannarlega á fólki að halda. Við þurfum á vinnandi höndum að halda og það er gott fyrir íslenskt samfélag að við séum fjölbreytt og fólk komi hingað til lands, hvort sem það býr hér til lengri eða skemmri tíma. En það á ekki allt saman heima í því sem við höfum kallað verndarkerfið. Það er bara öðruvísi kerfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt á tímum sem þessum, þar sem við horfum upp á þá miklu fólksflutninga sem eiga sér stað í heiminum og fjölda fólks sem þarf á vernd að halda, að við höldum utan um verndarkerfið og þennan mikilvæga sáttmála sem alþjóðasamfélagið hefur gert með flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, en brjótum það kerfi ekki niður með séríslenskum ákvæðum eða reglum sem er ætlað að bjarga þeim sem við höldum að séu örfáir. Það brýtur undan kerfinu.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að gefa ræðumanni hljóð í ræðustól, sérstaklega þegar hv. þingmenn hafa beðið um að veita andsvar en þá gefst þar tækifæri til orðaskipta.)