154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

sameining framhaldsskóla.

[10:57]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja að það er algerlega ljóst að við þurfum að auka slagkraftinn í framhaldsskólakerfinu. Við höfum unnið áætlanir um það hvernig við getum mætt því. Við höfum verðmetið þær til næstu ára, hvernig við mætum til að mynda stóraukinni ásókn í starfsnám, hvernig við mætum nemendum sem eru með annað móðurmál en íslensku, hvernig við mætum stórauknum fjölbreytileika sem er inni í framhaldsskólunum. Það er einfaldlega þannig. Hið skýra svar við þessu er að það eru tvær leiðir til að mæta þessu. Annars vegar er það sú leið að við getum skapað slagkraftinn utan frá eða sú leið að við förum inn í framhaldsskólakerfið og gerum skipulagsbreytingar þar til að skapa svigrúm fyrir þær. Það er sú leið sem við erum að vinna að, að skapa svigrúm fyrir það inni í framhaldsskólakerfinu, vegna þess að við verðum að skapa pláss fyrir þessi verkefni. Það er ekki til þess gert að sprengja upp einhverja umræðu eða eitthvað slíkt, það er til þess að mæta hinum lögbundnu kröfum sem okkur ber sem samfélagi að takast á við. Menntastefnan rammar inn að við ætlum að ná miklu betri árangri heldur en við höfum gert á undanförnum árum.

Það er hins vegar ánægjuefni að það er aukinn stuðningur við aukið fjármagn inn í framhaldsskólakerfið vegna þess að það mun sannarlega slaka á þeirri vinnu sem við erum með í gangi og gera það að verkum að við getum endurskoðað hana. En það er ekki í hendi og við munum þurfa að svara því hvernig við ætlum að tryggja fjármagn til fjölgunar starfsnámsnema, til þeirra hópa sem ég nefndi hérna áðan og námsgagna og fleira. Þannig að samtalið næstu vikur verður að leiða í ljós hvernig við getum unnið úr framhaldinu vegna þess að við ætlum ekki að gefa eftir þau markmið (Forseti hringir.) sem lagt var af stað með til að efla framhaldsskólakerfið.