154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[13:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona nú að það sem mér finnst vera ákveðið formsatriði flækist ekki fyrir því að þingið geti tekið til starfa við að vinna að þessu máli því að þetta er alveg gríðarlega mikilvægt mál og það er fjöldi manns úti í þessu samfélagi sem bíður eftir þessu máli. Það er bara þannig. (Gripið fram í.) Það er búið að bíða eftir lögfestingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þetta er undirstaða og forsenda þess að hægt verði að ljúka því. Þannig að hvernig sem fer með einhverja nefndarvísun hér þá ætla ég bara að segja það að ég ber fullt traust til allra nefnda þingsins og ég styð tillögu forseta þingsins um það hvert þetta mál eigi að fara. Aðalmálið er að þingið geti farið að taka til starfa. Hér hafa fjöldamörg atriði komið fram, fólk mitt í forsætisráðuneytinu hefur fylgst með þessari umræðu af athygli þannig að við getum mætt vel nestuð til samtals við þingið þegar málið fer þar á dagskrá. Það er í mínum huga stóra málið, að við getum farið að taka til verka í þessu máli sem fjöldi fólks bíður eftir.