154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög gott svar. Ég þakka kærlega fyrir. Ég velti fyrir mér hvort við ættum ekki að reyna að útvíkka þetta aðeins til þessara fjárfestingaraðila. Kannski er gallinn á nákvæmlega þessari útfærslu, af því að viðkomandi fjárfestingaraðilar eru að kaupa þessa tugi íbúða, að veðsetningarhlutfallið er þá komið niður í núll á engri stund. Gæti veðsetningarhlutfallið í þeim tilvikum kannski verið að hámarki 60% eða 50% eða eitthvað því um líkt, þó að þú værir að kaupa þrjár, fimm, tíu eða 100 íbúðir? Alla vega þyrftu viðkomandi aðilar að leggja til meira fé til að fjárfesta og þannig lágmarka í rauninni vaxtakostnaðinn sem er á bak við fjárfestinguna, alla vega með tilliti til lántöku. Þá eru náttúrlega bara vextir af fjárfestingunni sjálfri en ekki afleiddir vextir í gegnum lánastofnun sem myndu þá leggjast sem ákveðinn kostnaður á leigjendur í framhaldi af því.