154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

efasteignalán til neytenda.

171. mál
[16:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Umræðan um verðtrygginguna, það er eitt af mínum uppáhaldsumræðuefnum. Hún er ákveðinn vítahringur í hagkerfinu okkar. Hún er svona letiefnahagstæki, það sem er hægt að nota til þess að sjálfkrafa soga í rauninni fjármagn frá landsmönnum til að reyna að bjarga einhvern veginn efnahagsástandinu. Á meðan geta allir aðrir, fjármálafyrirtækin og ríkisstjórnin og svoleiðis, verið bara í ákveðnu sukki í fjármálum. Ef þau gera eitthvað rangt í sukkinu sínu þá skellur reikningurinn einfaldlega bara á almenningi. Þetta er ákveðinn galli í efnahagsstjórn sem þarf að laga af því að vísitala neysluverðs, og allar vísitölurnar sem eru til hvað það varðar, eru í rauninni bara mælitæki á hagkerfið. Um leið og þær fara að mæla sjálfar sig — ef vísitala neysluverðs mælir breytingu á verði á húsnæði sem er notuð til þess að hækka verðið á húsnæði, á leigusamningum og þess háttar, þá allt í einu breytist mælingin. Þú byrjar á að mæla einn metra en svo bara af því að þú mældir einn metra sem hafði áhrif til hækkunar á leigusamningana sem var verið að mæla þá allt í einu breytist stikan. Það er bara fáránlegt. Það má ekki. Þetta er einhvers konar meinloka sem við einhvern veginn náum ekki í gegnum efnahagsflokkana hérna sem eru í fjármálaráðuneytinu, af einhverjum undarlegum orsökum, líklega af því að þetta hjálpar þeim að vera latir í efnahagsstjórn og geta notað þetta orð, stöðugleiki, í öðru hverju orði án þess að þau meini í rauninni neitt nema einmitt að þau treysti á þessa handbremsu, verðtrygginguna.