154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

aðgerðir og áætlanir stjórnvalda gegn fátækt.

[15:22]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil kannski rifja það upp með hv. þingmanni að fyrir síðustu áramót samþykkti Alþingi frumvarp mitt þess efnis að hækka frítekjumark atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem hafði ekki hækkað frá árinu 2009. Þar var stigið mikilvægt skref í þá átt að auðvelda atvinnuþátttöku þessa hóps, þ.e. að fólk hefði meira eftir áður en kæmi til skerðinga.

Hvað varðar 25.000 kr. markið hjá eldra fólki þá er það m.a. eitt af því sem er til skoðunar í starfshópi á vegum mín, innviðaráðherra og fjármálaráðherra, þannig að það er verið að taka afkomu eldra fólks, sérstaklega þeirra sem minna hafa, til sérstakrar endurskoðunar þar.

Hækkunin á almannatryggingum er 4,9% um áramótin eftir því sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, sem er til þess að halda í við verðlagsþróun, (Forseti hringir.) en þar sem samningar á vinnumarkaði eru opnir er ekki horft til hækkana þeim megin.