154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[16:48]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni og segja að þessi sálræni stuðningur er gríðarlega mikilvægur og þess vegna erum við að undirbúa það, m.a. þegar samtal verður við foreldra, að þar verði jafnframt boðið upp á sálrænan stuðning við börn, það sé fagfólk í þeirri vinnu, það sé boðið á fyrstu stigum. En við erum einfaldlega á þeim stað núna, eins og nefnt var hér áðan, að einungis örfáir dagar eru liðnir og lykilatriði til þess að ná að búa þetta til er að koma stjórnsýslunni af stað, koma af stað þeim hlutum sem þarf til þess að ná að skipuleggja og til þess að hafa svörin. Þar höfum við verið að styðja við Grindavík en síðan er ætlunin að koma inn af fullum þunga í þessa vinnu. Ég hef ekki áhyggjur af því og sagði það hér að ég vissi að Alþingi Íslendinga myndi bakka upp Grindavík með því afli sem þyrfti. Ég hef ekki áhyggjur af því að Alþingi Íslendinga sé ekki tilbúið til að setja fjármagn í það, m.a. að ná utan um andlega þáttinn sem fylgir þessu áfalli. En fyrst þurfum við að vita í hvað það á nákvæmlega að fara. Við höfum sagt við Grindavík: Við erum tilbúin til að koma inn með þær bjargir og það afl sem þarf til þess að ná utan um þetta samfélag og allt það sem heyrir undir ráðuneyti mennta- og barnamála er þess eðlis að það er að vinna í svona ósnertanlegum hlutum, bæði menntun, andlegri líðan barna o.s.frv. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af því og mun leggja það til ef það er niðurstaðan, við Alþingi, við ríkisstjórn og aðra aðila, að koma inn í það. En þá þurfum við að vita nákvæmlega í hvað fjármagnið á að fara. Ég reikna með því að það verði nauðsyn en það liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti núna nákvæmlega hvað það yrði. Við höfum sett aukið afl og stuðning við starfsfólk með Grindavíkurbæ inn í þessa vinnu og ég reikna með því að upp úr því muni fæðast aðgerðir, tillögur o.s.frv., sem verði unnar í samstarfi við Grindavík og munu örugglega rata hingað inn á Alþingi.