154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrirspurnina. Þetta er mjög mikilvægur fundur og ég tek undir með hv. þingmanni að það eru mjög stór mál á dagskrá þessa fundar, hnattræn stöðutaka þar sem lagt verði mat á árangur ríkja. Það liggur fyrir fyrir fundinn að það þarf að herða verulega á aðgerðum, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum ef markmið Parísarsamningsins eiga að nást. Hv. þingmaður nefnir hér loftslagshamfarasjóðinn, um tap og tjón eða hvernig sem þýða á það. Það á að ræða tillögur um fyrirkomulag fjármögnunar og skilyrði til úthlutunar á þessum fundi og fyrr í dag voru tekin ákveðin skref, þ.e. það náðist ákveðin samþykkt um stofnun sjóðsins sem gerir það að verkum að það verður unnt að ræða um hann á leiðtogahluta loftslagsráðstefnunnar þannig að ég geri ráð fyrir því að gera grein fyrir því þar hver aðkoma Íslands verður að þessum sjóði. Þetta er að gerast mjög hratt.

Hv. þingmaður spyr um afstöðu og ég tel að ég hafi að einhverju leyti farið yfir það hér áðan. Auðvitað stöndum við algjörlega föst við það markmið sem við undirgengumst í París um að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Við höfum heyrt ákveðnar efasemdaraddir um það markmið víða um heim en við munum standa algjörlega föst á því og taka skýra afstöðu um útfösun á notkun jarðefnaeldsneytis og að niðurgreiðslum verði hætt. Ég nefndi hérna áðan freðhvolfið og hafið sem við höfum verið að leggja sérstaka áherslu á og meiri áherslu en margar aðrar þjóðir, ekki síst á hlutverk hafsins í því að draga úr losun. Það liggur alveg fyrir að aðgerðaáætlunin frá 2020 þarf að uppfæra og mér skilst að þeirri vinnu verði lokið öðru hvorum megin við áramót af hálfu umhverfisráðuneytisins.