154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

framsal íslenskra ríkisborgara.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn sem varðar mál einstaklings sem ég ætla bara að segja hér strax að ég er ekki með neinar nákvæmar upplýsingar um umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Hvað varðar framsal til Noregs þá byggir það væntanlega á því að Ísland og Noregur eru með framsalssamning sín á milli sem er væntanlega fylgt í þessum efnum. Ef lög hafa verið brotin, eins og hv. þingmaður veltir hér upp í sinni fyrirspurn, þá er það að sjálfsögðu eitthvað sem þarf að taka til skoðunar af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneytis. En ég verð bara að segja það, því miður, að ég þekki ekki nákvæm efnisatriði málsins og get alls ekki tjáð mig um það hvort að einhverjar reglur hafi verið brotnar því að ég þekki hreinlega ekki efnisatriðin. En að sjálfsögðu mun ég grennslast fyrir um þau í kjölfar þessarar fyrirspurnar hv. þingmanns. Ég leyfi mér þó að segja að svona mál eru auðvitað mjög flókin og viðkvæm. Þetta varðar forræðisdeilu, eins og ég skil fréttir málsins, sem er auðvitað gríðarlega flókið og viðkvæmt mál.