154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[16:57]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta mál. Svo sannarlega styður maður þessa viðleitni. Það er ekki vanþörf á að við snúum bökum saman og reynum að efla íslenskuna, tryggja það að hún lifi af tíma þar sem mikið er sótt að henni. Við sjáum það auðvitað svolítið á börnunum okkar að málumhverfi þeirra er orðið að stórum hluta á ensku og það smitast síðan rakleitt inn í orðaforða þeirra og hvernig þau beita tungumálinu.

Mig langaði aðeins að nefna, sem kemur auðvitað pínulítið í framhaldi af þeirri umræðu sem var í andsvörum á undan og snýr að fjármögnun þessa verkefnis, þetta með starfstengda íslenskunámið fyrir innflytjendur samhliða vinnu. Það kemur fram að samráð verði haft við aðila á vinnumarkaði og fræðsluaðila um sérstöðu úrræðisins, ávinning og fjármögnunarleiðir. Svo er sagt nánar til skýringar, þegar verið er að fjalla um þessa aðgerð, að menn hafi m.a. komist að því að það skiptir miklu máli að svona fari fram á vinnutíma og samhliða starfi. Jafnframt að samhliða því að veita fjármagni í fræðsluna verði fyrirtæki hvött til undirbúningsvinnu, mótunar jafningjastuðnings og gerðar starfstengdra orðalista.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, á sama tíma og ég fagna því mjög að þetta mál sé að koma fram, hvort menn hafi eitthvað reynt að eiga þetta samtal fyrir fram við aðila vinnumarkaðarins, hvort menn sjái fyrir sér að þetta verði kostnaðarþungt fyrir atvinnulífið, vegna þess að ef þetta á að fara fram á vinnutíma þarf einhver að greiða fyrir það. Mig langaði bara að spyrja um hvort þetta samtal væri eitthvað farið af stað eða hvernig menn sæju fyrir sér að þetta gæti þróast og hvort kostnaður atvinnulífsins yrði mikill við þetta.