154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[17:03]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Ég held að það sé þannig í mínu daglega lífi að ég lesi eitthvað frá Eiríki á hverjum einasta degi. Varðandi þau ummæli sem hv. þingmaður er að vitna í að að mati Eiríks Rögnvaldssonar á þingsályktunartillögunni sé hún skrifuð fullmikið í viðtengingarhætti, þá ber samkvæmt reglum þingsins að skrifa þingsályktunartillögur í viðtengingarhætti. Ég verð að segja að ég var sjálf ekki með það alveg á hreinu þegar við fórum að hugsa út í þetta en svoleiðis eru þær skrifaðar og þess vegna er viðtengingarhátturinn í svo miklum mæli.

Virðulegur forseti. Það sem mestu máli skiptir er að þetta er samvinnuverkefni þjóðar og allra þeirra sem búa hér. Framgangur og velgengni þessa máls veltur auðvitað á því að við fáum alla til að taka þátt í þessu. Við getum verið hér með ákveðinn ramma og þingsályktunartillögu og margar mjög góðar aðgerðir sem eru að fullu fjármagnaðar en lykillinn að því að þetta gangi allt eftir er að það sé samfélagsleg þátttaka og að okkur takist að virkja innflytjendur til þátttöku og búa þannig um hnútana að tryggt sé að þeir geri það. Þessi mikla áhersla á íslenskunámskeið er nýlunda í svona miklum mæli. Við höfum ekki séð það áður.