154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í morgun fór allsherjar- og menntamálanefnd til fundar við menntamálaráðherra og fékk upplýsingar um niðurstöður okkar í PISA. Niðurstöðurnar eru með öllu óásættanlegar. Því miður hefur það verið svo í langan tíma að árangur íslenska grunnskólakerfisins er ekki nægilega góður en hann fer versnandi. Það er algerlega óásættanlegt að aðeins 60% 15 ára barna hafi náð grunnfærni í lesskilningi. Það er óásættanlegt og við verðum að grípa til aðgerða. Hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað samtal við okkur í allsherjar- og menntamálanefnd sem við höfum mikinn áhuga á að taka. Ég hef jafnframt óskað eftir sérstakri umræðu um þetta mál hér í þingsal. Hæfni íslenskra barna er örlítið meiri þegar kemur að stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi. En stóra málið er að námsárangur er ekki nægilegur. Aftur á móti sýna þessar niðurstöður líka að líðan barna í íslenskum skólum er betri en víða annars staðar og þau bera traust til kennara sinna. Það eru jákvæðar fréttir og það er eitthvað sem við eigum sannarlega að geta byggt á. En lausnin felst ekki í auknu fjármagni inn í kerfið því að við skulum líka muna það að útgjöld til menntamála á Íslandi eru með þeim hæstu innan OECD-landanna. Hér þarf þess vegna að taka til í kerfinu, átta sig á því hvaða breytinga er þörf til að ná árangri og til þess verðum við að hafa mælikvarða á það sem virkar og það sem virkar ekki. Ég ætla líka að leggja það til að norrænu menntamálaráðherrarnir komi sér upp samnorrænni vísinda- og ráðgjafarnefnd því að það er ljóst að niðurstaða hinna Norðurlandanna (Forseti hringir.) er líka að fara niður á við og þess vegna held ég að við verðum að hlusta á vísindafólkið okkar, fólkið sem veit hvaða námsaðferðir virka.