154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:00]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Árnadóttur hvað varðar bakslagið sem hefur átt sér stað í hinsegin samfélaginu og hvað Samtökin '78 gegna mikilvægu hlutverki, enda kom hv. þm. Jódís Skúladóttir sjálf inn á það. Það hefur verið mikil aukning í þjónustuþörfinni og Samtökin '78 hafa verið að sinna mörgum einstaklingum og mörgum málaflokkum. Ég sé auðvitað að í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að bæta við 12 millj. kr. til Samtakanna '78 en ég tel einfaldlega að það sé ekki nóg og það muni ekki mæta þjónustuþörfinni í íslensku samfélagi, þ.e. þörf þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda sem Samtökin '78 bjóða upp á, sem eru rosalega mörg, og það hefur alveg sýnt sig sérstaklega á þessu ári hvað það er mikilvægt.