154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég dett hér aðeins inn í afleysingu í efnahags- og viðskiptanefnd, gríðarlega gaman, tek þetta á stuttu róli fyrir vikið og ætla að leggja aðeins áherslu á stærri myndina í þessu.

Staðan er sú að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki virkað. Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 var lagt fram gerði Hagstofa Íslands ráð fyrir 4,9% verðbólgu á þessu ári. Sú spá hækkaði upp í 5,6% í árslok áður en frumvarpið var afgreitt en nú er verðbólga 8% og gert ráð fyrir 8,7% verðbólgu í árslok í ár miðað við hvað kemur fram í nefndaráliti vegna fjáraukalaga, merkilegt nokk. Samt átti þetta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem við erum að klára þetta árið, að vinna gegn verðbólgu. Næsta átti að gera það líka. Á sama tíma hefur verðbólga í Evrópu hins vegar farið minnkandi, úr 8,6% í upphafi árs niður í 2,4% í nóvember 2023. Í upphafi árs var verðbólga á Íslandi hins vegar 9,9% en er komin núna niður í 8%. Á Íslandi hafa stýrivextir hækkað úr 6% í 9,25% miðað við hækkun úr 2% stýrivöxtum hjá Seðlabanka Evrópu í upphafi árs í um 4% — efnahagslega staðan eins og hún er. Fjárlagafrumvarpið og skattstefna ríkisstjórnarinnar þar á bak við áttu að berjast við verðbólguna en þetta er niðurstaðan. Sem sagt: Það tókst ekki.

Skattstefna ríkisstjórnarinnar er náttúrlega annar helmingur efnahagsstefnunnar. Peningakerfið stjórnast í stórum dráttum af umfangi lána, útgjöldum ríkisins, stýrivöxtum og sköttum. Á móti kemur síðan ákveðin verðmætasköpun og viðskiptajöfnuður við útlönd; stóru flæðisþættirnir í hagkerfinu. Síðan er ákveðið innra flæði eins og stýrivextirnir og verðbólgan og því um líkt sem stjórnar því hvernig ákveðnir hópar innan hagkerfisins eru í rauninni að koma út úr viðskiptum sínum með þennan blessaða gjaldmiðil sem við erum með.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar getur aðallega haft áhrif á hagkerfið á tvennan hátt, annars vegar með því að hafa stjórn á útgjöldum og hins vegar með skattheimtu. Ekki eru hins vegar öll útgjöld eins, og heldur ekki allir skattar. Sum útgjöld skapa verðmæti en önnur gera það ekki og sumir skattar eru hamlandi en aðrir eru hvetjandi. Til dæmis má nefna kolefnisgjald. Einhverjir myndu segja að kolefnisgjald sé hamlandi skattur en markmið þeirrar skattlagningar er í rauninni að úrelda kolefni og þar með skattlagninguna. Skattlagningin snýst um að láta mengun kosta og þau sem menga borga. Það er því hvati til að menga ekki og samfélag sem mengar ekki er bara betra samfélag en samfélag sem mengar. Svo einfalt er það.

Skattlagning er efnahagslegt stjórntæki og það er áhugavert að pæla í því bara fræðilega eins og með nútímahagfræðipælingum hvernig í rauninni skattar virka á eiginlegt fjármagn. Í raun og veru er alveg jafngilt að horfa á skattlagningu sem svo að verið sé að eyða peningum úr hagkerfinu og útgjöld ríkisins skapa í rauninni peninga inn í hagkerfið á móti. Það er alveg jafngilt því að segja að það sé í raun og veru verið að taka fjármagn frá fólki til að setja í einhver verkefni, það munar í rauninni engu í samlíkingunni sem slíkri. En það lýsir í rauninni bara því hvernig peningar virka og hvernig ríkið á peninga og hvert andvirði peninga er og þess háttar. Það eru áhugaverðar pælingar þarna á bak við.

Skattlagning hefur áhrif á verðmæti peninga með því einmitt að eyða peningum úr hagkerfinu. Með skattlagningu eykst andvirði þeirra peninga sem eftir eru. Ef ríkið tekur til sín peninga sem eiga að vera ákveðin ávísun á verðmæti í samfélaginu þá eykur það verðmæti afgangsins af fjármununum sem eru til skiptanna gagnvart þeim verðmætum sem eru til. En síðan kemur ríkið með útgjöld á móti til að blanda þar inn í og þá getur það valdið þenslu og ýmsu svoleiðis. Þess vegna hefur skattkerfið áhrif á það hvernig peningaflæði í hagkerfinu er með því að skattleggja laun, verslun, vörur, þjónustu, fjármagnstilfærslur og arðgreiðslur. Með því að ákveða hvar er verið að skattleggja, og hversu mikið er verið að hafa áhrif á það hvernig peningar flæða.

Til dæmis getur lágur fjármagnstekjuskattur haft þau áhrif að í stað þess að arður af starfsemi sé greiddur sem launatekjur sé arður frekar greiddur sem fjármagnstekjuskattur. Þetta er alveg áhugavert því það má þá spyrja hvort skattkerfið sé sanngjarnt því þegar einhver er í þeirri aðstöðu með einhverja starfsemi sína að borga sér laun sem starfsmaður í þeirri starfsemi eða að sú starfsemi greiði arð til sömu manneskjunnar vegna ágóða þeirrar starfsemi, en það er mismunandi skattlagning af þessum tveimur mismunandi ráðstöfunum, annars vegar sem launatekjur eða hins vegar sem arður, og ef fólk getur valið að nota þá leið sem leiðir til þess að það sé borgaður minni skattur þá er það ekkert endilega rosalega sanngjörn leið til að hafa áhrif á hvernig skattkerfið sem slíkt virkar miðað við annað fólk sem hefur ekki sama tækifæri til þess að stunda starfsemi sína eða viðskipti þannig. Heimili geta ekki beint sett heimili sitt á kennitölu og sett öll matarinnkaup sem kostnað o.s.frv. og talið það á móti skatti o.s.frv. Það er ekki alveg þannig sem það virkar, því miður, kannski. Það er margt í skattkerfinu sem er ekki alveg jafnt. Af þeim sökum er einmitt nauðsynlegt að skoða hvar séu möguleikar til þess að svindla sig dálítið fram hjá því að greiða skatt á sama hátt og aðrir.

En í þessu verðbólguástandi sem hefur varað í um tvö ár hefur ríkisstjórnin ekki beitt skattheimtu sem hagstjórnartæki, aðallega vegna þess að ég held að það samræmist ekki hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. En það er ekki nóg að segja að skattar eigi að vera lágir af því að það útilokar í rauninni notkun á einu helsta hagstjórnartæki ríkisstjórnarinnar. Það er að vissu leyti skiljanlegt hins vegar að ríkisstjórnin forðist að nota skattkerfið sem hagstjórnartæki því að fólk hefur mjög sterkar skoðanir á skattheimtu en með því að breyta sem minnstu þar í eða bara með því að einbeita sér að því að hafa skatta lága þá er verið forðast óvinsældir vegna skattheimtu. Það er hins vegar ekki efnahagslega góð stefna af því að það er efnahagslega heilbrigt að skattkerfið virki til að koma í veg fyrir efnahagsbólur. Það er það sem gerist oft þegar það eru möguleikar til að fara á svig við skattheimtu sem sumir geta notfært sér en ekki aðrir. Það leiðir í rauninni til þess að tekjur ríkisins almennt séð minnka, sem dugar þá ekki fyrir þeim lögum og þeirri þjónustu sem er búið að samþykkja að eigi að veita. Þar af leiðandi þarf að hækka skatta á alla og það gerir það að verkum að það eru aðrir sem borga fyrir það að sumir eru að ná að svindla sig fram hjá kerfinu með löglegum holum eða meira að segja ólöglegum holum þegar allt kemur til alls.

Við þurfum nefnilega að hafa skattkerfi og haga ríkisútgjöldum þannig að það sé efnahagslega heilbrigt á þann hátt að minnka líkur á efnahagslegum óstöðugleika til að efnahagskerfið virki einmitt fyrir alla en ekki bara suma. Því leggjum við fram nokkrar breytingartillögur til að laga aðeins augljósa galla. Til að byrja með leggjum við til að kolefnisgjald verði hækkað um 50% til að færa það nær markaðsvirði. Eins og er þá er það ekki þannig að þau sem menga borgi, það eru aðrir sem borga þar upp á milli þannig að mörg okkar borga fyrir þau sem menga. Þau sem menga eiga að greiða fyrir þá mengun. Það er einfaldlega sanngjarnt.

Í öðru lagi er lagt til að skattrannsóknarstjóra verði veitt aukin heimild til að koma í veg fyrir skattsvik með útgáfu tilhæfulausra reikninga. Þetta er allt að koma með svo skömmum fyrirvara að þessi breytingartillaga verður lögð fram í 3. umræðu til að klára hana þar.

Í þriðja lagi er lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður í 30% til að loka fyrir þetta skattagat sem er á milli hátekjuskattsþrepsins og fjármagnstekjuskatts. Eins og er geta sumir komist hjá því að greiða hátekjuskatt með því að greiða sér arð í staðinn fyrir laun. Þessi breyting hefur nær eingöngu áhrif á efstu tekjutíund, alla vega miðað við gögnin eins og þau koma fram á tekjusagan.is. Það er lagt til líka að persónuafsláttur fjármagnstekna verði hækkaður á móti einmitt til þess að draga úr áhrifum þessarar hækkunar á alla aðra, þ.e. hækkaður upp í 400.000 kr. úr 300.000.

Í fjórða lagi er lagt til að ónotaður persónuafsláttur fjármagnstekna verði hækkaður upp í 400.000 kr. á ári.

Í fimmta lagi er lagt til að almennur tekjuskattur verði lækkaður og lög um sóknargjöld verði felld brott en trúar- og lífsskoðunarfélög geti ákveðið og innheimt félagsgjöld sín sjálf, ríkið þurfi ekki að innheimta þau gjöld fyrir félögin.

Að lokum er lagt til að gjöld í gjaldskrá Samkeppniseftirlitsins vegna samrunamála verði hækkuð þannig að gjaldskráin endurspegli raunverulegan kostnað eftirlitsins vegna samrunamála. Með þessu móti má nýta þau úrræði sem löggjafinn hefur á sviði ríkisfjármála til að auka aðeins jöfnuð og stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Þetta er ekki allt sem þarf að gera en þetta er svona, eigum við að segja í áttina að því, þetta eru augljósu vandamálin.