154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

gjaldtaka vegna afnota af vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

18. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér öðru sinni fyrir tillögu til þingsályktunar um gjaldtöku vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu. Tillagan var áður flutt á 143. löggjafarþingi og gekk til nefndar en náði ekki fram að ganga. Flutningsmenn þessarar tillögu nú, ásamt þeim sem hér stendur, eru hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Steinunn Þóra Árnadóttir, Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Bjarni Jónsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram frumvarp til laga sem tryggi hlut þjóðarinnar í arðinum af nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu með innheimtu auðlindagjalds. Vindur verði skilgreindur í lögum sem sameiginleg auðlind í eigu þjóðarinnar.“

Virðulegi forseti. Vindur hefur fram til þessa ekki verið nýttur að ráði til raforkuframleiðslu hérlendis en áhugi á framleiðslunni hefur aukist stórum á undanförnum misserum samfara hraðri framþróun í tiltækri tækni til nýtingarinnar. Ekkert okkar hefur farið varhluta af umræðu um stórkarlaleg uppbyggingaráform hringinn í kringum landið og þykir sumum nóg um. Það er því rétt að halda því til haga að í dag heyrir nýting vindsins undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun og á grundvelli þeirra samþykkti Alþingi einmitt tvær vindorkuvirkjanir, Búrfellslund og Blöndulund, í nýtingarflokk áætlunarinnar vorið 2022.

Á vegum stjórnvalda er nú unnið að stefnumótun í málaflokknum. Á þingmálaskrá hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er frumvarp til laga um vindorku boðað í næsta mánuði sem byggist á tillögum starfshóps um nýtingu vinds til raforkuframleiðslu. Það verður áhugavert að sjá þetta frumvarp fram komið sem og þingsályktunartillögu um opinbera stefnu um hagnýtingu vindorku eins og starfshópurinn leggur til.

Virðulegi forseti. Umræða um nýtingu vinds er tiltölulega ný af nálinni í okkar auðlindaríka landi. Að mati flutningsmanna þessarar tillögu verður að ríkja sátt annars vegar um staðsetningu á uppbyggingu vindorkuvirkjana og hins vegar hvernig arðurinn af nýtingu þessarar nýju auðlindar nýtist samfélaginu. Sátt um hvort tveggja er forsenda þess að hér verði unnt að ráðast í uppbyggingu vindorkuvirkjana. Mikilvægt er að vindorkuvirkjanir byggist upp á afmörkuðum og þegar röskuðum svæðum með lágt verndargildi, nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Taka þarf ríkt tillit til sjónrænna áhrifa, vistkerfa, dýralífs og náttúru. Til að ná þessum markmiðum þurfa umhverfisrannsóknir og samráð við félagasamtök og almenning að vera grundvöllur ákvarðana.

Virðulegi forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að boðuð lagasetning um nýtingu vindorku hérlendis undirstriki þá meginreglu að vindurinn sé auðlind í sameign þjóðarinnar og leyfi til nýtingar hans tryggi íslensku þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu vegna nýtingar til framleiðslu raforku. Vindurinn er um margt ólíkur öðrum auðlindum sem nýttar eru til raforkuframleiðslu hér á landi. Vind er víðast að finna í ríkulegu magni, ólíkt landsvæðum sem þykja ákjósanleg undir vatnsfalls- og/eða jarðvarmavirkjanir. Vindurinn er þó ekki stöðugur orkugjafi líkt og miðlað fallvatn og talið heppilegt að framleiðslu á orku úr vindi sé studd af sveifluminni framleiðslu, svo sem miðluðu vatni, svo tryggja megi afhendingaröryggi.

Uppbyggingu vindorkuvirkjana fylgir mikið umhverfisrask vegna mannvirkjagerðar, svo sem vega og línulagna, sem kann að rýra og ganga á gæði lands í nágrenni virkjunarinnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á ýmis umhverfisáhrif, svo sem sjón-, hljóð- og umhverfismengun, til að mynda frá byggingarefnum, að ótöldum áhrifum á lífríki, sérlega dýralíf. Ekki síst geta sjónræn áhrif vindorkuvirkjana á landslag verið mikil.

Brýnt er að mörkuð verði stefna um vindorkuvirkjanir á hafi, en umhverfisáhrif þeirra eru eðli málsins samkvæmt annars konar en vindorkuvirkjana á landi.

Eins og áður segir er nú unnið að stefnumótun í málaflokknum. Í boðaðri lagasetningu er mikilvægt að skilgreina grundvöll endurgjalds vegna nýtingar á vindi til raforkuframleiðslu og að hann taki mið af kostnaði vegna áhrifa á vistkerfi í návist vindorkuvirkjunarsvæða og óafturkræfra áhrifa á landslagsheildir.

Hvað varðar landnæði og gjaldtöku af auðlindum er vert að vísa til ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA frá 20. apríl 2016 þar sem segir að endurgjaldslaus afnot af landi og auðlindum í eigu hins opinbera feli í sér ríkisaðstoð og stangist á við EES-samninginn. Sú niðurstaða undirstrikar meginreglu um að eðlilegt gjald skuli greitt fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum en niðurstaðan vísar til nýtingar vatns- og landsréttinda á þjóðlendum á Þjórsársvæðinu, einu helsta orkuvinnslusvæði landsins. Þjóðlendur eru auðlind samkvæmt lögum og var Landsvirkjun gert að greiða endurgjald vegna afnota af svæðinu til raforkuframleiðslu.

Engin heildarlög eru til um skilgreiningu auðlinda, nýtingu þeirra og gjaldtöku. Hins vegar eru dæmi um auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti og teljast þjóðareign á grundvelli sérlaga, til að mynda laga um þjóðlendur og afrétti, sem og laga um auðlindir hafsbotnsins. Þá nær einkaeignarréttur ekki til auðlinda án skilgreinds eiganda, til að mynda sólarljóss og vindorku. Fiskveiðiauðlindin er skilgreind sem sameign þjóðarinnar í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Um auðlindina gilda síðan sérlög vegna gjaldtöku, lög um veiðigjald, nr. 145/2018. Gjaldtakan er m.a. hugsuð til að mæta rannsóknum og eftirliti á nýtingu auðlindarinnar sjálfrar en jafnframt til að tryggja hlutdeild þjóðarinnar í arði af auðlindinni.

Eins og áður segir er vindur um margt ólíkur öðrum auðlindum og ein augljósasta hliðstæðan eru fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis. Þær, rétt eins og vindinn, er að finna óháð náttúrulegum skilyrðum á landi. Fjarskiptatíðnir eru skilgreindar sem auðlind í þjóðareign samkvæmt lögum um fjarskipti, nr. 70/2022.

Virðulegur forseti. Markmið þessarar tillögu er að tryggt verði með lögum að greitt verði fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Mikilvægt er að slíkt gjald endurspegli umhverfisáhrif, standi undir eftirliti, ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjunarsvæðum. Með vísan til 1. gr. laga um veiðigjald er lagt til að gjaldið endurspegli hlutdeild þjóðarinnar í arði af auðlindinni og að úthlutun leyfis til nýtingar á vindi til orkuframleiðslu sé tímabundin heimild til skilyrtra afnota sem leiði hvorki til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar auðlindarinnar, líkt og kveðið er á um í lögum um fjarskipti.

Virðulegur forseti. Að umræðu lokinni legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.