154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

hagsmunafulltrúi eldra fólks.

[15:34]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Flokks fólksins hafa farið mikinn í þessu máli. Með popúlískum hætti að mínu mati hafa þau komið hérna upp og reynt að gera lítið úr því sem verið er að vinna að í þágu eldra fólks og þjónustu við eldra fólk, t.d. í gegnum aðgerðaáætlunina Gott að eldast. Hér kom fram þingsályktunartillaga þar sem ráðherra var falið að mynda starfshóp sem myndi leggja síðan til frumvarp. Ég hef sagt það að það kann vel að vera að þetta frumvarp komi fram á einhverjum tímapunkti. Það hefur aldrei verið útilokað í mínu máli. Það var hins vegar niðurstaðan að það væri óskynsamlegt að gera það að sinni. Það væri miklu skynsamlegra að setja á fót þá þjónustu sem gert er ráð fyrir í aðgerðaáætluninni Gott að eldast, aðgerð sem komin er í gang, aðgerð sem við þurfum að sjá hverju mun skila í betri þjónustu við eldra fólk, þar sem við höfum safnað saman eldra fólki til að segja okkur hvað það er sem eldra fólk vantar. (Forseti hringir.) Það að ætla að koma fram með frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks án þess að hafa það nægilega mótað, án þess að byggja það á gögnum — ég ætla ekki að taka þátt í þannig vinnubrögðum þó svo að Flokkur fólksins vilji gjarnan að ég geri það. (JFM: Þingið samþykkti það.)