154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[14:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er oft sagt að fæst orð beri minnsta ábyrgð og ég held að það eigi dálítið við í þessum aðstæðum. Ég ætlaði ekki að koma upp í ræðu en bætti mér á mælendaskrá af því að við höfum átt orðastað hér við hv. þingmenn stjórnarinnar, Ágúst Bjarna Garðarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Steinunni Þóru Árnadóttur, um það hvernig við bregðumst við og búum til áætlanir og sviðsmyndir og þess háttar. Ég skil það vel að stjórnarþingmenn vilji ekki viðurkenna að það hefði verið hægt að grípa betur í taumana og taka skýrari ákvarðanir og gera betri sviðsmyndir o.s.frv. Eitt skýrasta dæmið um það hvernig hlutir hafa misfarist — það hefur ýmislegt gott verið gert, ég dreg ekki neina dul á það, sérstaklega þau viðbrögð sem komið eftir að eitthvað gerðist. Þegar það voru jarðskjálftar, þegar það voru eldgos þá hafa viðbrögðin sem komu í kjölfarið verið mjög góð. Ég hrósa öllum þar og viðbragðsaðilum sérstaklega og það má alveg hrósa ríkisstjórninni fyrir viðbrögðin þar líka og þingheimi fyrir að bregðast vel við tillögum ríkisstjórnarinnar, sem er oft varhugavert og ekkert sjálfsagt af því að þegar við fáum þannig aðstæður að þingmál koma hratt inn og hratt í gegnum þingið, þá kostar það oft sitt, það eru gerð ákveðin mistök og það bara kostar.

Það eru nokkur dæmi um að gera hefði mátt betur, sérstaklega dæmið um heitavatnsleysið í Reykjanesbæ fyrir mánuði síðan eða svo. Eftir jarðhræringarnar í nóvember fékk ríkisstjórnin minnisblað um aðgerðir sem þyrfti að grípa til strax til þess að koma í veg fyrir tjón seinna vegna þess að það er í rauninni bara ein lína sem sér Reykjanesbæ fyrir heitu vatni. Það þyrfti að koma upp kyndingu við Fitjar. Það voru listuð upp ákveðin atriði sem þyrfti að gera, þetta var faglegt mat viðbragðsaðila út af þeim aðstæðum sem mynduðust við eldgosið í nóvember. Það var ekki brugðist við þessu. Ef það hefði verið brugðist við strax og það hefði verið hlustað á fagaðilana strax þá væri mögulegt að það hefði verið — kannski hefði ekki alveg verið búið að klára, hver veit, en það hefði alla vega verið möguleiki á að það hefði verið búið að klára að koma upp kyndingu við Fitjar sem hefði gert það að verkum að ekki hefði orðið heitavatnslaust í Reykjanesbæ í síðasta mánuði. Það finnst mér pínu ámælisvert því að þarna verður að liggja ákveðið áhættumat undir. Ríkisstjórnin fær þarna ráðleggingar um hvað á að gera og leggur í rauninni mat á áhættuna á því sem getur gerst, hvort það eigi að bregðast við eða ekki. Vissulega kostaði það peninga, kostaði 2 eða 2,5 milljarða eða eitthvað svoleiðis í heildina að setja upp slíka aðstöðu. Og jú, það er áhætta í því. En viðbúnaðurinn eða aðstaðan hefði þá verið varanleg í kjölfarið, það er líka fjárfesting að hafa slíkt öryggistæki. Núna er einmitt verið að reyna að koma upp annarri tengingu til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Það tekur vissulega lengri tíma, talað um tæpt ár eða eitthvað svoleiðis sem tekur að koma upp þeirri fjárfestingu, sem sagt þeirri byggingu sem er ekki það sama og ef hitt hefði verið gert. Það væri vissulega olíukynding sem er dýr og leiðinleg o.s.frv. en, aftur, það hefði komið í veg fyrir þennan skaða sem varð í Reykjanesbæ.

Þetta er grundvöllurinn að því sem mér finnst stjórnvöld hafa í rauninni hunsað eða vanrækt að leggja fram fyrir bæði alþjóð og fyrir fólk á þessu svæði á skaganum, að segja: Við erum núna í þessum aðstæðum. Í þessum aðstæðum er t.d. ekki skólastarf, það er ekki þessi starfsemi og ekki svona atvinnustarfsemi. Þetta eru aðstæðurnar. Ef þær breytast, ef það kemur gos þarna þá breytast aðstæður og þá tekur við ný sviðsmynd sem við munum ganga strax í. Ef það verður gos annars staðar þá mun verða brugðist öðruvísi við. Það þarf að setja upp þessar mismunandi sviðsmyndir. Ef það gýs aftur á sama stað og gaus í nóvember erum við enn þá með sömu sviðsmynd og við erum með núna. Ef það gýs innan Grindavíkur þá erum við bara út næsta áratuginn. Gera eitthvað því um líkt, að leggja fram þessar áætlanir, þá sýna stjórnvöld að þau eru að hugsa um það hvernig viðbrögðin eiga að verða. Það er fyrirsjáanleiki í því, fyrirsjáanleiki sem er nauðsynlegur til að fólk geti gert áætlanir um hvort það ætli að búa á svæðinu eða hvort það þurfi að gera tímabundnar ráðstafanir varðandi húsnæði eða skólavist eða hvað það er. Er það að hugsa um að koma aftur til Grindavíkur eftir eitt ár, tvö, fimm, tíu ár eða ekki?

Mér finnst þessi svör vanta. Í núverandi aðstæðum þar sem er verið að opna aftur í Grindavík og ef ekkert annað breytist, kvikusöfnun heldur áfram, það gýs einhvers annars staðar en kvikusöfnun heldur áfram, verður þá hægt að hefja aftur skólastarf í Grindavík að lokum? Hversu lengi má svipað ástand og er núna vara til að slíkt sé talið öruggt? Eða verður það aldrei talið öruggt? Það þarf að svara þessum einföldu spurningum í raun og veru. Ég geri mér grein fyrir því að svörin eru ekki einföld en spurningarnar eru einfaldar og það er augljóst að stjórnvöld ættu að svara þessum spurningum. Þetta er það sem ég var að gera athugasemdir við í málflutningi stjórnarþingmanna hérna áðan, um þennan skort á ákvörðunum. Það hafa verið teknar góðar ákvarðanir, það hafa verið teknar slæmar ákvarðanir en það liggur ekki fyrir að stjórnvöld viti í rauninni hvað þau eru að gera nema að bregðast hratt við. Það er það eina jákvæða sem ég hef séð í stöðunni, það er brugðist hratt við þegar náttúruhamfarirnar verða. Það er ekkert annað í boði, að sjálfsögðu ekki. Ég held að allir hérna inni hefðu brugðist svipað við.

Ég er að biðja um framtíðarsýnina, að spilin séu einfaldlega lögð á borðið. Miðað við núverandi aðstæður, hvað gerist þá? Hvað gerist næstu fimm eða tíu árin? Og segja síðan: Við vitum ekki hvort þessar aðstæður verði viðvarandi eða ekki. Ef þær breytast og verða svona, sem gefur fullt af sviðsmyndum en ekkert rosalega margar í rauninni, þá breytast aðstæðurnar, breytast forsendurnar og skilyrðin fyrir því hvort hægt sé að vera með einhverja starfsemi í Grindavík eða ekki. En við fáum þetta ekki. Og bara aftur eins og í Covid þá kalla ég eftir því að stjórnvöld gyrði sig í brók og skili fólki þessum greiningum, skili þinginu þessum greiningum, sýni að það sé verið að gera áætlanir sem hönd er á festandi, þetta sé ekki bara skyndiviðbragðsstjórn þar sem við þurfum að fara í gegnum þetta á handahlaupum. Fyrir jól t.d. var frumvarpið sem innviðaráðherra kom með búið að liggja inni í ráðuneytinu í einhverjar þrjár vikur, ákvörðunin um hvað átti að gera, þangað til að það kom til þingsins sem þurfti svo að afgreiða það á innan við viku, á sama og engum tíma. Það er ekki boðlegt að við séum að vinna þetta svona. Ríkisstjórnin þarf að sýna betur á spilin og sýna hvað er í vinnslu, hverjar framtíðarhorfurnar eru miðað við mismunandi sviðsmyndir. Þannig að ég hvet ríkisstjórnina enn og aftur til að vinna vinnuna sína.