154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

grunnskólakerfið á Íslandi.

[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn fórum vítt og breitt um landið í kjördæmaviku eins og margir fleiri og við einbeittum okkur sérstaklega að menntastofnunum. Við fórum í skóla á öllum skólastigum og það verður að segjast eins og er að hljóðið er frekar þungt. Það er mjög þungt, svo að ég tali fyrir sjálfa mig, þegar kemur að grunnskólanum. Við báðar, forsætisráðherra og ég, þekkjum ágætlega til varðandi menntamálin og menntamálaráðuneytið en hún var ráðherra fram til 2013. Síðan þá hefur samfélagsgerðin breyst verulega og tónninn í skólafólkinu okkar, tónninn í stjórnendum var þungur. Hann var þungur af því að, og við sjáum það svolítið í PISA, að þau ná ekki að sinna þörfum ólíkra hópa. Og ég er ekki bara að tala um það risavaxna samfélagsverkefni sem þessi ríkisstjórn hefur eiginlega dembt á skólana með fjölgun útlendinga úr 30.000 í 70.000. Þeim er dembt inn í skólakerfið án þess að hafa neitt plan, án þess að hafa neitt inngildingarplan, án þess að hafa neitt íslenskuplan. Það er á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar.

En það er allt hitt líka, að passa upp á fegurðina í fjölbreytileikanum, fegurðina í því að skólarnir eru okkar jöfnunartæki. Við erum að missa það jöfnunartæki svolítið út úr höndunum og það er sárt. Við sjáum það í gegnum PISA en við finnum það ekki síst í gegnum þessi samtöl sem við áttum í okkar dýrmætu kjördæmaviku.

Í sjö ár eru þessi teikn búin að vera ítrekað á lofti en samt er staðan þessi núna. Hvert var svar ríkisstjórnarinnar eftir síðustu kosningar? Jú, skiptum bara menntamálaráðuneytinu upp í þrennt. Það er það eina sem hefur gerst á þessum vettvangi. Mín spurning til verkstjóra ríkisstjórnarinnar í þessu risavaxna verkefni, að halda utan um skólakerfið okkar, halda m.a. utan um grunnskólana til þess að þeir geti skilað ólíkum einstaklingum inn í framhaldsskólann, út í atvinnulífið, er: Hvernig gat þetta gerst á ykkar vakt?