154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og mikið var gott að heyra að Samfylkingin styðji það að við höfum lög sem haldi vel utan um þetta. Það þarf að vera skilvirkni í þessu kerfi okkar og ég held að við getum verið sammála um það. Ég er sammála hv. þingmanni að okkur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd bíður mikil vinna að fara yfir þetta frumvarp, fá til okkar gesti og tryggja það að frumvarpið nái fram markmiðum sínum og ég æski góðs samstarfs við hv. þingmann í þeirri ágætu vinnu.

Mér heyrist svona að tónninn sé svolítið annar en hann var fyrir ári síðan og ef svo er þá gleður það mig mjög því að ég hef virkilega mikla trú á þessu þinglega ferli sem við erum að fara í gegnum núna. Ég verð að viðurkenna að ég vonaðist til þess á síðasta þingi að við hefðum náð betur saman um ákveðna málaflokka og margt í vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar var reyndar þannig að við gátum verið sammála um ýmislegt. Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann: Er það rétt skilið hjá mér að það slær svolítið nýjan takt hjá Samfylkingunni í því hvernig fjallað er um málefni útlendinga og þeirra sem hingað sækja eftir alþjóðlegri vernd? Telur hv. þingmaður að við getum náð saman um að styðja þetta góða frumvarp sem hér liggur fyrir þinginu?