154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:58]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Alþýðusambandið hefur jafnframt lýst því í ályktun sem það hefur sent frá sér að þær breytingartillögur sem fram eru komnar séu bara þannig að allar þær umsagnir sem hafa verið veittar hingað til séu bara orðnar, hvað eigum við að segja, þær eru bara úr gildi. Þær eru ekki að fjalla um sama frumvarp. Í morgun hafa Neytendasamtökin, VR og Samtök verslunar og þjónustu sent frá sér varnaðarorð. Maður veltir fyrir sér, þegar samtök upp á sirka 200.000 manns eru farin að senda frá sér varnaðarorð; Alþýðusambandið, Samtök verslunar og þjónustu, VR og Neytendasamtökin, ber ekki þinginu þá að hlusta á slík varnaðarorð? Hv. þingmaður segir hér að þetta sé gott fyrir bændur en þessir aðilar, sem telja væntanlega tvo þriðju af hópi Íslendinga, hafa allt aðra skoðun.