154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[16:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og vildi spyrja hann út í atriði sem stendur mér mjög nærri og mér þykir mjög vænt um og það eru persónulegir talsmenn. Ég hef verið ötull talsmaður þess að persónulegir talsmenn fái greitt fyrir sína vinnu. Öðruvísi getum við ekki talað um að fatlaðir einstaklingar geti til fulls og á fullum jafnræðisgrundvelli nýtt sér löghæfi sitt vegna þess að ef persónulegir talsmenn fá ekki greitt fyrir sína vinnu þá er aðstöðumunur, þá er munur á því hvort þú átt aðstandendur sem eru tilbúnir að taka að sér sjálfboðavinnu sem getur oft verið mjög tímafrek, eða ekki. Það skiptir bara öllu máli hvort þú hafir einhverja í kringum þig sem eru tilbúnir að vinna frítt. Þetta er líka mikilvægt jafnréttismál að því leytinu til að hvert leitar umönnunin alla jafna? Hún leitar til kvenna. Konur taka því að sér ólaunuð umönnunarstörf í raun, stuðningsstörf, til að fatlaðir einstaklingar geti nýtt sér lögformlegt hæfi sitt til fulls. Þetta finnst mér ekki boðlegt ástand, virðulegi forseti.

Ég sé hér að það stendur til að láta hinn fatlaða einstakling greiða fyrir útlagðan kostnað þannig að þetta er líka efnahagsmál þótt ég taki vissulega eftir því að hægt er að taka ákvörðun um annað af hálfu sýslumanns. Það breytir því ekki að mér finnst þetta vera töluverð aðgangshindrun að sjálfsögðum mannréttindum fatlaðs fólks sem eru að hafa aðgang að persónulegum talsmanni sem getur aðstoðað það við að nýta lögformlegt hæfi sitt til fulls. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að greiða laun fyrir þessa mikilvægu vinnu?