154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og það voru þrjú atriði sérstaklega sem mér fannst áhugavert að rekja saman. Hv. þingmaður talaði um traustið, í rauninni vantraustið á Sjálfstæðisflokknum, að einhvern veginn allt sem hann kemur nálægt er einfaldlega litið þeim augum að þar sé um einhverja sérhagsmuni að ræða. Þegar maður sér ákvæði eins og ótímabundna útdeilingu almannagæða þá er bara fyrsta viðbragð að tengja það við þennan blessaða flokk. Þar kemur vantraustið í rauninni inn í, óheppilegt. Einnig talaði hún um sáttina um að breyta stjórnarskrá eða kannski að einn flokkur þurfi að vera sáttur til að sátt myndist. Mér finnst það mjög áhugaverð sýn og mér finnst hún mjög lýsandi fyrir einmitt þetta ástand sem við erum í hvað hnútinn um stjórnarskrána og sérstaklega auðlindaákvæðið varðar. Að lokast summast þetta held ég allt saman í laxeldisfrumvarpinu sem var troðið hérna í gegn á einum degi 2018. Þar var lofað fram og til baka og ég man ekki hversu margir sérfræðingar komu fyrir nefndir þingsins og sögðu: Ef eftirlitið væri nú gott þá getur þetta bara allt virkað. Hvernig fór það? Hvert fóru öll þau loforð hvað eftirlitið varðaði? Hvað hafa verið margar slysasleppingar og göt og mengunarslys og ég veit ekki hvað og hvað síðan þá sem gott eftirlit átti að koma í veg fyrir? Öll þau orð sem birtast í þessu frumvarpi um dýravernd og eftirlit og græn skref og ég veit ekki hvað og hvað eru ekkert nema orðin tóm einmitt af því að traustið er ekki til staðar og sáttin er ekki til staðar.