154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

listamannalaun.

937. mál
[21:34]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum oft tekist á og rætt um laun listamanna, bæði í þessum sal og úti í samfélaginu, en mér þykir mikilvægt að koma hingað upp og fagna því sem hér er verið að leggja fram. Hinar skapandi greinar eru alltaf að verða stærri og stærri hluti af þeim tekjum sem við fáum inn í þjóðarbúið og er nú skemmst að minnast hinnar gríðarlegu aukningar sem hefur komið frá kvikmyndageiranum en aðrir geirar eru líka þar undir. Þessi viðhorf sem við oft heyrum, að nú sé verið að setja pening í eitthvað svona dúllerí, eru hverfandi. Hverja krónu sem við setjum í listsköpun, þá vísa ég sérstaklega í kvikmyndagerðina, fáum við margfalt til baka. Við fórum yfir það í umræðu um fjármálaáætlun — ég man ekki tölurnar akkúrat núna — hversu stór hluti vinnumarkaðarins starfar í dag við skapandi greinar. Það er orðin alla vega talsvert mikið stærri prósenta heldur en t.d. sem starfar við fiskeldi eða afleidd störf í kringum það. Þetta er nefnilega orðin mjög há prósenta af vinnumarkaðnum og við erum alltaf að skilja betur og betur hversu mikilvægt það er fyrir þjóðarbúið að stutt sé við skapandi greinar; að þau sem leggja stund á listir og sköpun, sækja sér til þess menntun og fara út í atvinnulífið að starfa eru okkur óendanlega dýrmæt.

Mig langaði bara að koma hingað upp og fagna þessu og þeim breytingum sem við erum að sjá. Mér finnst þetta vera hugrökk og mikilvæg skref. Oft er því ruglað saman í umræðunni í samfélaginu, annars vegar því sem hér er til umræðu og hins vegar heiðurslaunum listamanna. Öllu er blandað saman og allir verða mjög æstir í þeirri umræðu. Það er samtal sem við eigum eftir að taka seinna en ég myndi helst vilja gefa hressilega í þar líka. Við eigum að horfa til okkar unga fólks sem er að stíga sín fyrstu skref í skapandi greinum, er að koma sér á framfæri og leggja metnað sinn í það að skapa tekjur fyrir þjóðarbúið með sinni sköpun. Við eigum að styðja við þetta unga fólk en ekki síður eigum við að sýna því listafólki virðingu sem hefur allan sinn starfsferil starfað í hinum ýmsu listgreinum og lagt ómetanleg verðmæti með sínum störfum inn í þjóðarbú Íslendinga. Við eigum líka að virða það sem þau gera og gera enn betur þar.