154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:59]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að segja að þetta er að mörgu leyti, ef ekki að mestu leyti, góð og mikilvæg aðgerðaáætlun sem ég styð þótt ég hafi ákveðið að setja nafnið mitt ekki við nefndarálit meiri hlutans. En ástæðan fyrir því að ég var ekki með á nefndaráliti er að mér þykir skorta að gera grein fyrir fjármögnun mikilvægra verkefna í aðgerðaáætluninni. Hvergi er í ályktuninni gerð grein fyrir kostnaðarmati né vísað í hvernig aðgerðir verði fjármagnaðar. Það eru engar upphæðir nefndar né mat á því hvað það kostar að ná tilætluðum árangri. Það er auðvitað ekki traustvekjandi, forseti. Svo eru aðgerðir eins og aðgerð 9, um aukna talsetningu og textun á íslensku. Þetta er gríðarlega mikilvæg aðgerð en í stað þess að auka talsetningu og textun þá að fara í að greina umfang og möguleika á aukinni talsetningu og textun myndefnis. Það hafa áður verið gerðar greiningar á þessu og það er vitað mál að það þarf ekki frekari rannsóknir til að komast að því að þörfin er til staðar. Það þarf bara að fjármagna og það þarf að ganga í verkið.

Forseti. Mig langar að fara aðeins yfir þau sjónarmið sem komu fyrir nefndina við umfjöllun nefndarinnar um þetta mál, þau sjónarmið sem mér fannst kannski sérstaklega mikilvægt að fjalla um þegar kemur að þessari umræðu um hætturnar sem steðja að okkar litla en undurfallega tungumáli, íslenskunni. Það var svo fallega orðað í nefndinni þegar það var sagt að allur heimurinn væri í boði en hann væri ekki á íslensku, en við erum pínulítil og athyglin er úti um allt. Það kom fram í máli gesta að við erum ekki eina landið sem á það á hættu að glata tungumálinu og víðs vegar annars staðar er verið að fara í mjög markmiðaðar aðgerðir. Það er verið að grípa til aðgerða eins og að gera bækur nánast skattlausar eða að ríkið kaupi eitthvert magn bóka þegar þær koma út og setji í bókasöfn. Það er verið að festa verð á bókum sem eru að koma út, fyrsta árið er verðið fest; alls konar svona aðgerðir sem er verið að grípa til einmitt til þess að tryggja stöðu tungumála í viðkomandi landi.

Það hafa komið fram sjónarmið um að listamenn séu með tækin til að gera íslenskuna skemmtilega og áhugaverða en skorti stuðninginn. Við erum í auknum mæli farin að færa peningana aðeins ofar í keðjuna en til höfunda. Peningarnir fara t.d. til bókaútgáfunnar frekar en til þeirra sem eru raunverulega að skapa verðmætin, en einnig komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að gera umhverfi bóka skemmtilegt og að það þyrfti að lyfta upp bókabúðum og bókasöfnum.

Forseti. Þegar ég spyr ungt fólk af hverju áhugi á lestri sé að minnka, og þá sérstaklega á íslenskum bókum, þá er svarið að það sé ekki nægilega mikið af bókum sem höfða til ungs fólks. Þetta er fullkomlega rökrétt svar. Það liggur í augum uppi að ef við viljum efla íslenska tungu þá verðum við að efla listafólkið. Við verðum að efla hugmyndasmiðina sem skapa efnið sem gerir íslenskuna skemmtilega og aðlaðandi fyrir unga fólkið og tryggja svo að efnið sé aðgengilegt öllum. Þetta er lykillinn að velgengni í þessum málaflokki en eins og með svo mörg önnur mikilvæg verkefni kostar þetta pening, eins og með allar góðar fjárfestingar. Til þess að taka alvarlega þessa aðgerðaáætlun og þessa stefnu þá verðum við að sjá að það sé verið að fullfjármagna hana.

En þegar kemur að aðgengi efnis þá sakna ég þess að meira sé fjallað um mikilvægi bókasafna í þessari aðgerðaáætlun. Það er fjallað um að efla skólasöfn, sem er frábært, en það er að eiga sér stað ótrúlega öflug og mikilvæg breyting á bókasöfnum í samfélaginu okkar, yfir í eins konar menningarmiðstöðvar. Það er þróun sem sveitarfélögin hafa að mestu leyti verið að standa fyrir en ríkið ætti einnig að styðja við og hlúa að þessari þróun. Við þurfum með virkum hætti að stuðla að því að bókasöfnin verði samfélagshús sem bjóði ekki bara upp á deilingu á bókum heldur líka alls konar viðburði. Við getum stuðlað að því að bókasöfn verði heitu pottarnir okkar á þurru landi og stuðli þannig m.a. að aukinni inngildingu. Bókasöfnin eru þegar farin af stað með þessa þróun með mikið af spennandi viðburðum eins og borðspilakvöldum og lautarferðum þar sem alls konar fólk er að mæta með mismunandi bakgrunn, með mismunandi menningarbakgrunn, og er að kynna menningu fyrir hvert öðru og læra íslensku saman. Það að styðja við þessa þróun í samvinnu við sveitarfélögin er risastór þáttur í að efla íslensku og gera hana aðgengilega og skemmtilega.

Það einfaldar svo ekki málin hvað bókasöfnin falla undir marga ráðherra. Þau falla undir fjóra ráðherra. Það er háskóla-, það er mennta-, það er menningar- og það er innviðaráðherra og þetta þarf að sjálfsögðu að hugsa vel, vegna þess að hvernig verður hægt að marka stefnu til að stuðla að framþróun mikilvægs málaflokks þegar ábyrgðarsviðið er svona svakalega dreift?

Forseti. Þessi aðgerðaáætlun er mikilvægt skref í inngildingaráformum stjórnvalda og því skiptir það svo miklu máli að hún sé fullfjármögnuð. Ég get ekki séð að svo sé, því miður, en það skiptir ekki síður máli að önnur þingmál ríkisstjórnarinnar vinni ekki beinlínis gegn því mikilvæga verkefni að efla inngildingu. Nú er mér sérstaklega hugsað til þeirra breytinga á útlendingalögum sem við erum að fjalla um núna í allsherjar- og menntamálanefnd en þar er verið að auka á óöryggi og óvissu fólks á hátt sem er til þess fallinn að torvelda inngildingu þeirra í íslenskt samfélag. Og af hverju er ég að tala um útlendingalög hér í umræðu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu? Út af því þetta er heildrænt. Þegar stjórnvöld eru að vinna að sameiginlegum markmiðum þá verða þau að tryggja að lögin sem er verið að setja séu öll til þess fallin að ná þessum markmiðum en ekki að setja hindranir og torvelda getu fólks til að mæta þeim markmiðum og það er það sem við erum að sjá gerast núna. Við verðum að muna að stærsti þátturinn í farsælli inngildingu er að fólkið sem hingað kemur upplifi sig velkomið og finni fyrir því að rödd þeirra, þekking, reynsla og menningararfur sé metinn að verðleikum. Það er þaðan, frá þessari upplifun, að vera boðin velkomin til að vera partur af samfélagi, sem þessi drifkraftur og ástríða fyrir því að læra tungumálið og fræðast um menninguna kemur.