154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Frumvarpið miðar að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf annarra Evrópuríkja, einkum Norðurlandanna. Þá miðar frumvarpið að aukinni skilvirkni í stjórnsýslu útlendingamála, hagræðingu og bættri nýtingu fjármagns, bæði vegna stjórnsýslu og verkefna sem tengjast inngildingu. Samhliða þessu leggur meiri hlutinn áherslu á markmið laganna um að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Ávallt skal tryggja grundvallarréttindi einstaklinga samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá skal ekki víkja frá alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist, m.a. á grundvelli flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur verið fullgiltur og unnið er að því að lögfesta.

Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um breytta skipan kærunefndar útlendinga. Með frumvarpinu er lagt til að nefndarmönnum verði fækkað úr sjö í þrjá, þ.e. formann, varaformann og einn nefndarmann sem hafi starfið að aðalstarfi. Í dag hafa tveir nefndarmenn starfið að aðalstarfi, þ.e. formaður og varaformaður, en fimm aðalmenn sem hafa starfið að aukastarfi mæta að jafnaði eingöngu á nefndarfundi á tveggja vikna fresti. Þessi skipan hefur leitt til erfiðleika við að bregðast við þeim fjölda kærumála sem til meðferðar er hjá nefndinni hverju sinni.

Meiri hlutinn er sammála fyrirhuguðum breytingum á skipan kærunefndarinnar og telur að breytt skipan muni stuðla að aukinni skilvirkni í störfum hennar. Með því að bæta við nefndarmanni sem hafi starfið að aðalstarfi geti kærunefndin afgreitt kærumál jafnóðum og þannig mætt auknum málafjölda. Þá minnir meiri hlutinn á að frumvarpið gerir kröfu um nauðsynlega sérþekkingu á þeim sviðum sem nefndin fjallar um og að samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar skal ráða hæfasta umsækjandann um opinbert starf á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Þá áréttar meiri hlutinn að kærunefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi. Meiri hlutinn telur þó brýnt að koma til móts við sjónarmið sem varða áhrif á málsmeðferðartíma kærunefndarinnar og sérþekkingu innan nefndarinnar og leggur því til breytingu á frumvarpinu sem gerð verður nánari grein fyrir hér á eftir.

Þá beinir meiri hlutinn því jafnframt til ráðuneytisins að meta breytta skipan kærunefndar útlendingamála, m.a. varðandi málshraða, og hvort þörf sé á frekari breytingum með hliðsjón af fenginni reynslu. Meiri hlutinn leggur áherslu á að aðstæður, verklag og starfsmannafjöldi hjá kærunefndinni tryggi að ekki myndist flöskuhálsar við undirbúning mála sem bíða úrskurðar. Meiri hlutinn telur jafnframt mikilvægt að löggjöf og fjárheimildir tryggi ákveðinn sveigjanleika til að bregðast við tímabundnu álagi sem skapast í málaflokknum í heild, hvort sem það er á verndar- eða leyfasviði Útlendingastofnunar eða hjá kærunefnd útlendingamála. Starfsaðstæður þurfa að styðja við skilvirka vinnu í málaflokknum því það eykur mannúð og stuðlar að aukinni stafvæðingu hjá Útlendingastofnun.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir brottfalli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og er um það fjallað í 3.–5. gr. frumvarpsins. Hér er um að ræða séríslenska málsmeðferðarreglu sem ekki er að finna í löggjöf hinna Norðurlandanna. Með brottfallinu verða umsóknir einstaklinga um alþjóðlega vernd ekki teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli þess að þeir hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að þeir fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því vegna þess að umsækjandi hafi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur eða aðilar tengdir honum ekki átt þátt í því að niðurstaðan hafi ekki fengist innan tímamarka. Umsagnaraðilar gerðu ýmsar athugasemdir við niðurfellingu þessa ákvæðis og er hægt að lesa um það í nefndaráliti.

Um þessar athugasemdir ber að segja, og kemur jafnfram fram í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins og er líka hægt að finna á vef þingsins, að hlutfall umsókna á Íslandi frá umsækjendum sem þegar eru með alþjóðlega vernd í öðru ríki hefur verið afar hátt undanfarin ár. Fjölda þessara umsókna má rekja til þess að íslensk lög og framkvæmd sé frábrugðin því sem þekkist annars staðar í Evrópu. Ísland hefur verið það ríki í Evrópu sem hefur fengið hlutfallslega flestar umsóknir frá einstaklingum sem þegar njóta verndar í öðru Evrópuríki. Þó að verndarmálum hafi fækkað hlutfallslega undanfarin tvö ár má m.a. rekja það til verulegrar fjölgunar umsókna frá ríkisborgurum Úkraínu og Venesúela. Í nefndarálitinu er ágætlega farið yfir þessar tölur, bæði sem sagt hlufall og gjölda, en á síðustu árum hafa verið á bilinu 200–300 umsóknir um vernd hér frá fólki sem þegar hefur vernd í öðru Evrópuríki.

Að mati ráðuneytisins mun afnám þessarar reglu draga úr fýsileika Íslands sem áfangastaðar í Dyflinnar- og verndarmálum. Þá muni málsmeðferð þessara mála einfaldast til muna. Hin séríslenska málsmeðferðarregla leiðir af sér afar umfangsmikla, tímafreka og flókna málsmeðferð hjá stjórnvöldum og skapar jafnframt hvata og togstreitu í kerfinu þar sem umsækjendur hafi hag af því að tefja mál sín. Fækkun þessara mála og einföldun þeirra hefði m.a. í för með sér að unnt yrði að setja aukinn mannafla í efnislega málsmeðferð.

Meiri hlutinn telur rétt að einfalda ferli slíkra umsókna hér á landi til að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga. Verndarkerfið þarf að vera uppbyggt þannig að þeir sem eigi rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Að mati meiri hlutans er því brottfall 2. mgr. 36. gr. laganna liður í að ná því markmiði. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að í erindi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málið er ekki gerð athugasemd við niðurfellingu ákvæðisins. Þá áréttar meiri hlutinn í því sambandi mikilvægi þess að meginregla laganna, um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu, verði ávallt virt, enda er Ísland bundið af þeirri reglu að þjóðarétti. Ákvæðið taki mið af 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum, sem er lögfestur og því verði ástand og aðstæður í móttökuríki alltaf kannaðar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Áfram verður hægt að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laganna. Með vísan til þess sem ráðuneytið bendir á telur meiri hlutinn mikilvægt að fylgjast með hvort og þá hvernig muni reyna á beitingu 42. gr. laganna og að allsherjar- og menntamálanefnd verði árlega gerð grein fyrir framkvæmd laganna hvað það varðar.

Um breytingar á skilyrðum til fjölskyldusameiningar vegna viðbótarverndar og dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða er fjallað í 6.–8. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að aðstandendur útlendinga sem fengið hafa viðbótarvernd hér á landi öðlist ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr en að a.m.k. tveimur árum liðnum eftir veitingu viðbótarverndar, enda hafi viðkomandi útlendingur fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað. Hvað varðar handhafa dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða er lagt til að réttur til fjölskyldusameiningar verði virkur eftir að dvalarleyfi hefur verið endurnýjað tvívegis.

Umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar og bentu á að þær gætu haft áhrif á grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá búi rík mannúðarsjónarmið að baki því að gera fólki kleift að sameinast fjölskyldum sínum.

Meiri hlutinn undirstrikar að framangreindar breytingar varða ekki fjölskyldusameiningar á grundvelli alþjóðlegrar verndar og að ekki eru lagðar til breytingar á rétti aðstandenda fylgdarlausra barna, sem hljóta viðbótarvernd, til fjölskyldusameiningar. Það er mat meiri hlutans að fyrirhugaðar breytingar byggist á málefnalegum sjónarmiðum og séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og þær takmarkanir sem heimilt er að gera á þeim rétti.

Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að koma til móts við sjónarmið sem fram komu við umfjöllun nefndarinnar um málið, bæði hvað varðar rétt til fjölskyldusameiningar og mikilvægi inngildingar. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á frumvarpinu til að kveða á um frekari undanþágur frá kröfu um endurnýjun dvalarleyfis þegar kemur að rétti til fjölskyldusameiningar og ég geri grein fyrir henni á eftir.

Um breytingar á gildistíma dvalarleyfis er fjallað um í 9.–10. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að gildistími dvalarleyfis þeirra sem njóta alþjóðlegrar verndar, skv. 2. mgr. 37. gr. laganna, um viðbótarvernd, verði tvö ár í stað fjögurra ára, á þeim forsendum að stjórnvöld geti endurmetið aðstæður í heimaríki áður en réttur til fjölskyldusameiningar og ótímabundins dvalarleyfis myndast. Jafnframt er lagt til að gildistími dvalarleyfis þeirra sem njóta alþjóðlegrar verndar verði þrjú ár í stað fjögurra ára. Í gildandi framkvæmd geta þeir sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar fengið ótímabundið dvalarleyfi að fjórum árum liðnum eða strax og fyrsta leyfi rennur út. Samkvæmt frumvarpinu verður gerð verði krafa um endurnýjun slíks leyfis áður en kemur til útgáfu ótímabundins dvalarleyfis, sem er jafnframt í samræmi við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum. Loks er lagt til að gildistími vegna endurnýjunar á dvalarleyfi skv. 74. gr., um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, verði til eins árs í senn, en nú er heimilt að endurnýja slíkt leyfi til allt að tveggja ára.

Í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er bent á að handhafar alþjóðlegrar verndar og viðbótarverndar eigi rétt á öruggri og stöðugri verndarstöðu sem ekki ætti að sæta reglulegri endurskoðun. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins kemur fram að frumvarpið kveði ekki á um breytingar á skilyrðum til afturköllunar alþjóðlegrar verndar en lögin tiltaka með ítarlegum hætti í hvaða tilvikum heimilt sé að afturkalla vernd. Í gildandi regluverki sé því gert ráð fyrir að skilyrði til veitingar viðbótarverndar sæti reglulegri endurskoðun. Þá er áhersla lögð á að ekki verði gerðar breytingar hvað varðar það að einstaklingar sem koma hingað til lands og sækja um alþjóðlega vernd muni áfram eiga rétt á þeirri málsmeðferð sem lög um útlendinga mæla fyrir um.

Meiri hlutinn tekur undir fyrirhugaðar breytingar á styttingu gildistíma dvalarleyfa og telur rétt að gildistími þeirra verði færður nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og að leitast sé við að gæta samræmis við þá framkvæmd sem þar tíðkast. Þá telur meiri hlutinn jafnframt rétt að stjórnvöldum gefist færi á að endurmeta aðstæður hjá viðkomandi áður en til útgáfu ótímabundins dvalarleyfis kemur. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytis er bent á að stytting gildistíma dvalarleyfa hafi takmarkaðar íþyngjandi afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem breytingin hefur áhrif á. Helgast það af því að á grundvelli gildandi laga er einstaklingum nú þegar ráðlagt að sækja um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli alþjóðlegrar verndar þegar sótt er um ótímabundið dvalarleyfi. Er það gert vegna þess að málsmeðferðartíminn er langur og er óheppilegt fyrir einstaklinga að vera án dvalarleyfis á meðan beðið er niðurstöðu umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi. Þá eru einstaklingar í betri réttarstöðu með gilt dvalarleyfi ef til synjunar kemur á umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Undirstrikað er að dvalarleyfishafar á öðrum grundvelli en alþjóðlegrar verndar hér á landi þurfa einnig að sækja um endurnýjun leyfa sinna áður en til veitingu ótímabundins dvalarleyfis kemur.

Þá um breytingartillögur okkar, fyrst varðandi skipunartíma kærunefndar útlendingamála og sérþekkingu á málefnasviði nefndarinnar. Í umsögnum og fyrir nefndinni var vakin athygli á því að með breytingu á skipan kærunefndar útlendingamála væri fallið frá því að kveðið sé á um skipun til fimm ára. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytis til nefndarinnar, dagsettu 19. apríl 2024, kemur fram að ekki hafi staðið til að breyta skipunartíma nefndarinnar og gera hann ótímabundinn. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að áfram verði mælt fyrir um skipun í nefndina til fimm ára skv. 6. gr. laganna. Þá telur meiri hlutinn brýnt að innan kærunefndar útlendingamála sé nauðsynleg sérþekking á sviði mannréttinda og í stjórnsýslurétti auk þess sem mikilvægt sé að horfa til heildstæðrar þekkingar innan nefndarinnar á þeim sviðum sem varða málefnasvið hennar. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á c-lið 1. gr. frumvarpsins þess efnis að kveðið verði á um það í lögum að með nauðsynlegri sérþekkingu innan kærunefndarinnar sé m.a. vísað til mannréttinda og stjórnsýsluréttar.

Tímabundin skipun nefndarmanna í kærunefnd útlendingamála. Vegna þess gríðarlega málafjölda hjá kærunefnd útlendingamála er lagt til að tímabundið til eins árs verði ráðherra heimilt að setja einn eða tvo nefndarmenn í hlutastarf eða fullt starf á meðan nefndin er að vinna niður þann mikla fjölda mála. Nefndin var 3. maí sl. með 920 óafgreidd mál hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd. Fyrir nefndinni kom fram að það er mat dómsmálaráðuneytisins að slíkt bráðabirgðaákvæði muni stuðla að því að jafnvægi náist í þeim málafjölda sem kærunefndin er með til meðferðar og að árið 2026 verði aðstæður hjá nefndinni orðnar þannig að þrír nefndarmenn í fullu starfi geti mætt sjónarmiðum um mannúð og skilvirkni.

Með vísan til minnisblaðs dómsmálaráðuneytisins er vakin athygli á því að sú breyting sem frumvarpið leggur til á skipan kærunefndar felur hvorki í sér sparnað né kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en nefndarmenn fá um þessar mundir greidd föst mánaðarlaun sem nema um 20% af launum varaformanns. Með breytingu þess efnis að tveir nefndarmenn hafi starfið að aukastarfi má áætla að viðbótarkostnaður vegna þess geti orðið um 660.000 kr. á mánuði eða tæplega 8 millj. kr. á ári.

Þá voru ábendingar í umsögn Útlendingastofnunar sem benti á að eðlilegt sé að orðalag 45. gr. laga um útlendinga verði breytt á þann hátt að skýrt sé að það taki einnig til kjörbarna. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis.

Þá er jafnframt í umsögn Útlendingastofnunar lagt til að orðin „eða fjölskyldusameiningar skv. 72. gr.“ í upptalningu 3. mgr. 70. gr. laga um útlendinga verði felld brott. Tillagan byggist á því að aðstandendur handhafa dvalarleyfa skv. 72. gr. hafa aldrei átt rétt til fjölskyldusameiningar skv. 69. gr. laganna og er tilvísunin því markleysa sem eðlilegast væri að fella brott til að koma í veg fyrir að hún skapi rugling og réttaróvissu. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis.

Þá um undanþágur frá lögbundnum biðtíma fyrir fjölskyldusameiningar. Nefndin fjallaði almennt um skilyrði til fjölskyldusameiningar og telur meiri hlutinn mikilvægt að horft sé til reglna um fjölskyldusameiningar á Norðurlöndum og að með breytingum frumvarpsins verði löggjöfin færð nær því sem þar tíðkast. Reglur um fjölskyldusameiningar eru þó mismunandi á milli ríkja en til viðbótar við lögbundinn biðtíma er að finna mismunandi skilyrði fyrir veitingu fjölskyldusameiningar annars staðar á Norðurlöndum, t.d. um framfærsluskyldu og inngildingarkröfur en slíkar kröfur eru ekki gerðar hér á landi við útgáfu leyfa til fjölskyldusameiningar. Hvað varðar biðtíma eftir fjölskyldusameiningu þá bendir meiri hlutinn á að þar togast á ólík sjónarmið um inngildingu og undirbúning fjölskyldusameiningar. Meiri hlutinn beinir því til stjórnvalda að fylgjast með áhrifum breytinganna og afla upplýsinga um reynslu annars staðar frá, þar á meðal hvernig hvatar eða stuðningur geti stuðlað að betri undirbúningi fyrir fjölskyldusameiningu og í kjölfarið inngildingu í samfélagið, svo sem samspil við íslenskunám, atvinnuþátttöku og öflun húsnæðis til framtíðarbúsetu, áður en fjölskyldusameining fer fram.

Líkt og fram kemur í a-lið 6. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um undanþágu frá kröfu um endurnýjun dvalarleyfis á hendur þeim sem njóta viðbótarverndar á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laganna mæli ríkar sanngirnisástæður með því vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða. Að mati meiri hlutans er tilefni til að mæla fyrir um frekari undanþágur í þessu efni. Þannig telur meiri hlutinn að rétt sé að heimila undantekningu frá kröfum um endurnýjun dvalarleyfis hafi viðkomandi haft dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. í a.m.k. eitt ár og verið virkur á atvinnumarkaði í átta mánuði og geti framfleytt sér á tryggan hátt í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í a-lið 1. mgr. 55. gr. laganna. Þá verði einnig gerð krafa um að viðkomandi uppfylli skilyrði um íslenskukunnáttu og hafi til umráða íbúðarhúsnæði fyrir aðstandendur sem sótt er um leyfi til fjölskyldusameiningar fyrir. Gert er ráð fyrir að ráðherra útfæri í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis, þ.m.t. hvaða skilyrði verði sett um íslenskukunnáttu og íbúðarhúsnæði.

Hvað skilyrði um íslenskukunnáttu varðar telur meiri hlutinn mikilvægt að þeir sem falla undir undanþáguna hafi lagt stund á íslenskunám í því skyni að stuðla að frekari inngildingu þeirra í samfélagið. Leggur meiri hlutinn til að kröfur um færni í íslensku verði nánar útfærðar í reglugerð. Meiri hlutinn bendir á að við mat á íslenskukunnáttu samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum er mikilvægt að gera greinarmun á færniþáttum annars vegar og þrepaskiptingu hins vegar. Þannig væri eðlilegt að gera kröfu um kunnáttu á tilteknu færniþrepi, svo sem um færni á þrepi A2 í þremur færniþáttum af fimm, þannig að mögulegt sé að taka tillit til þeirra sem ekki hafa grunnþekkingu á latneska stafrófinu við komu til landsins.

Hvað varðar skilyrði um að hafa íbúðarhúsnæði til umráða þá áréttar meiri hlutinn að það kunni að vera afstætt hvers konar húsnæði teljist vera fullnægjandi. Meiri hlutinn bendir á að horfa skuli til skilgreiningar á íbúðarhúsnæði sem mælt er fyrir um í c-lið 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur. Samkvæmt ákvæðinu er eitt skilyrði þess að eiga rétt til húsnæðisbóta að um sé að ræða íbúðarhúsnæði hér á landi sem feli í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem að lágmarki sé eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Þá leggur meiri hlutinn jafnframt til að nánari viðmið um hvað teljist fullnægjandi húsnæði í skilningi lagagreinarinnar verði útfærð í reglugerð, svo sem um brunavarnir og aðrar öryggiskröfur sem nauðsynlegt er að gera.

Samræmi vegna undantekninga frá gildistöku laganna. Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins eru lagðar til undantekningar frá gildistöku laganna, annars vegar varða þær kærunefnd útlendingamála og hins vegar er lagt til að ákvæði 5., 6. og 7. gr. gildi ekki um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og fjölskyldusameiningar, eftir því sem við á, sem bárust fyrir gildistöku laganna. Í 3. og 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingar sem eru afleiddar breytingar vegna fyrirhugaðra breytinga á 2. mgr. 36. gr. laganna. Til að gæta að fullu samræmi um gildistöku þá leggur meiri hlutinn til breytingu svo það verði jafnframt tilgreint að 3. og 4. gr. gildi ekki vegna málsmeðferðar umsókna sem þegar liggja fyrir við gildistöku laganna líkt og á við um 5. gr. frumvarpsins.

Þá eru lagðar til tvær breytingar á frumvarpinu sem lúta að orðalagi og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og nánar er gert grein fyrir í nefndaráliti.

Undir þetta nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið yfirferð minni yfir helstu þætti í nefndaráliti meiri hlutans. Mig langar jafnframt að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu í þessu máli. Við höfum tekið málið fyrir á, held ég, 13 fundum nefndarinnar. Við höfum fengið fjölda góðra gesta til nefndarinnar, bæði þá sem sendu inn umsagnir en líka aðra gesti. Ég ætla líka að nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra og starfsfólki hennar sem hefur verið ötult að mæta til nefndarinnar og svara spurningum okkar og senda okkur minnisblöð eins og óskað hefur verið eftir.

Ég tel okkur hér vera með mikilvægar og góðar breytingar á þessum viðkvæma málaflokki sem málefni fólks sem sækist eftir alþjóðlegri vernd hér er. Það er alveg ljóst að alls staðar í kringum okkur hefur þessi málaflokkur verið síbreytilegur og valdið oft á tíðum miklum pólitískum umræðum og óhætt er að segja að víða er orðin mikil skautun í þessum málaflokki. Ég held því að það sem við erum með hér í höndunum séu mikilvægar og góðar breytingar er lúta fyrst og fremst að því að færa löggjöf okkar nær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Íslenskt samfélag er velferðarsamfélag og hér er gott að búa og það er ekki óeðlilegt að fleiri vilji koma og búa á þessu fallega og góða landi okkar. Við erum með sambærilegar reglur og sambærilegt velferðarkerfi og víðast hvar á Norðurlöndunum og þar af leiðandi er ljóst að það er eðlilegt að regluverk um þennan mikilvæga málaflokk sé sambærilegt við það.

Við erum sem sagt að laga ákveðin göt sem hafa verið í kerfinu okkar. Það er mikilvægt að vera ekki með séríslenskar reglur og það sýnir sig í þeim málafjölda sem við höfum glímt við á síðustu árum þegar fólk með alþjóðlega vernd annars staðar í Evrópu hefur í auknum mæli sótt til Íslands. Það eru 200–300 umsóknir á ári hverju. Þær umsóknir hafa kostað töluvert umfang í yfirferð hjá Útlendingastofnun og þar af leiðandi er nauðsynlegt að draga úr þessu og afnám þeirrar séríslensku reglu er afskaplega mikilvægt. Á sama tíma erum við að færa okkur nær hinum Norðurlöndunum hvað gildistíma dvalarleyfis varðar og við erum að feta ákveðna vegferð hvað fjölskyldusameiningarnar varðar. Þannig að ég segi að hér erum við með gott mál í höndunum, góðar breytingar. Ég ítreka þakkir mínar til bæði sérfræðinga innan ráðuneytisins, allra þeirra gesta sem mættu á fundinn og til nefndarinnar sjálfrar og vona að við munum eiga hér gagnlegt og uppbyggilegt samtal um þennan mikilvæga málaflokk í dag.