154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, nú held ég að ég skilji betur það sem hv. þingmaður átti við þarna. Eins og ég sagði í ræðu minni þá er ég persónulega á þeirri skoðun að það sé mikilvægara að horfa á inngildingarkröfur eða hvata varðandi þessa þætti frekar en endilega árafjölda. Við spurðum ráðuneytið út í það og þá var ákveðið að nálgast það með þessum hætti núna. En það er auðvitað ætlast til þess og maður hefur væntingar til þess að hafi fólk verið hér í tvö ár þá sé það einmitt búið að fara í gegnum þessi stig sem hér eru nefnd. Að því sögðu þá velti ég því líka fyrir mér hvort það ætti bara að gera þessar kröfur almennt þegar þú endurnýjar dvalarleyfi þitt en eftir samtal við sérfræðinga þá komst ég að því að það myndi væntanlega ekki standast flóttamannasamninginn. Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að það er verið að setja þessa kröfu — þessi tvö ár eru ekki beint skrifuð út sem tvö ár per se heldur snýst þetta um að viðkomandi sé búinn að fá endurnýjun á dvalarleyfinu, viðkomandi sé örugglega (Forseti hringir.) áfram í þörf fyrir þessa vernd sem hann hefur fengið og þá sé tækifæri og ástæða til þess að viðkomandi geti fengið til sín sína fjölskyldu.