154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir með henni og ítreka líka það sem ég sagði hér áðan að Flóttamannastofnunin gerði ekki athugasemdir við það að þessi fræga grein væri tekin út úr lögunum eins og lagt er til í frumvarpinu. Ég mun svo sannarlega skoða betur 38. gr. norsku laganna en ég skynja það svo að hér sé einfaldlega um Dyflinnarreglugerðina að ræða, þ.e. þegar uppi eru sérstök tengsl. Það þurfi ekki að vera sérstakt ákvæði í lögunum en það geti svo sannarlega komið til þess. Þannig að ég spyr hv. þingmann hvort hún telji þetta ekki bara falla undir Dyflinnarreglugerðina, því að samkvæmt mínum heimildum þá er það svo þegar verið er að vísa í slík mál. Við höfum farið ágætlega yfir það í nefndinni þegar verið að tala um fyrsta griðland og við höfum rætt þá sérstaklega aðstæður sem uppi hafa verið í Suður-Ameríku og annað þess háttar. Við getum kannski farið betur yfir það síðar en það væri ágætt að fá svar við því hjá hv. þingmanni hvort hún telji ekki að þetta hreinlega falli þar undir þar sem við erum að sjálfsögðu skuldbundin Dyflinnarreglugerðinni, alveg eins og Norðmenn og norska löggjöfin.