154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:08]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er minn skilningur á þessum breytingum að lykilatriði í því sé m.a. það að þarna eru þrír aðilar í fullu starfi við að afgreiða þessi mál og það hafi verið til trafala í nefndinni að það hafi ekki átt við um alla starfsmenn áður. Ef ég man rétt var það í einhverjum tilvikum þannig að fundir voru haldnir kannski á tveggja vikna fresti og það hafði áhrif til að mynda á málsmeðferð. Ég get því alveg skilið að það muni auka ákveðna skilvirkni að þarna sértu með einstaklinga sem helga sig þessu, séu í fullu starfi við málið. Ég vek líka athygli á því að minn skilningur er sá, og það hefur verið fjallað um það hjá okkur í flokknum og í nefndarvinnunni, að í þeim tilvikum þar sem einn aðili er að úrskurða sé um rútínumál að ræða. Ég ítreka líka það sem fram hefur komið, að það er hópur af sérfræðingum sem vinnur þessi mál upp í hendurnar á þessum aðilum. Þannig að við erum svo sannarlega ekki og ég er svo sannarlega ekki að styðja þessa breytingu til að skerða (Forseti hringir.) réttarvernd þessa fólks heldur frekar til að tryggja öruggari málsmeðferð og hraða.