154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:10]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hlutfall umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi hefur verið afar hátt undanfarin ár og hlutfallslega hærra en annars staðar á Norðurlöndunum. Ástæður þess eru að lagaumhverfi og framkvæmd hér á landi hefur verið frábrugðin löggjöf og viðmiðum annarra Evrópuríkja, þar á meðal hinna Norðurlandanna. Ég tel afar mikilvægt að við stígum þau skref sem hér eru lögð til í þá átt að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, einkum Norðurlandanna. Ég vona að við berum gæfu til að samþykkja það sem lög frá Alþingi á þessu löggjafarþingi. Þau eru einn liður í aðgerðum stjórnvalda til að taka vel utan um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda með heildstæðum hætti. Með þessari heildarsýn er lögð áhersla á mannúð og virðingu og unnið gegn skautun í íslensku samfélagi.

Flestir þeirra flokka sem starfa hér á Alþingi eru sammála um mikilvægi þess að við náum utan um útlendingamálin. Þá er ákall um það í samfélaginu. Því treysti ég því að þingmenn leggi ekki stein í götu þessa frumvarps aðeins til að slá pólitískar keilur. Umræðan er nógu strembin fyrir. Alvarleiki skautunar í umræðunni um útlendingamál er áþreifanlegur og því meiri sem skautunin er því erfiðara verður að ræða um málaflokkinn út frá staðreyndum og sú hugmyndafræðilega gjá sem myndast hefur um útlendingamál hér á landi hefur hingað til aftrað uppbyggilegri umræðu. Við þurfum að komast upp úr þeim hjólförum.

Í því samhengi vil ég einnig nefna að fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á skautun í umræðunni með fréttaflutningi sem eykur oft á tíðum á spennu og ýtir undir skautun sem er umræðunni ekki til framdráttar. Við þurfum að komast upp úr því ástandi og ræða málin út frá staðreyndum og röksemdum en ekki upphrópunum þrátt fyrir að tilfinningarnar séu mjög miklar í málefnum er tengjast fólki í leit að alþjóðlegri vernd.

Virðulegi forseti. Við verðum að geta rætt þessi mál og horfst í augu við þann vanda sem liggur í því kerfi sem nú er við lýði en einnig aukinn kostnað í málaflokknum. Nauðsynlegt er að taka betur utan um hið mikla flæði umsókna sem ekki uppfylla skilyrði um vernd og auka þar með skilvirkni í afgreiðslu umsókna. Með því er hægt að endurskipuleggja þá fjármuni sem settir eru í málaflokkinn og tækifæri til að auka á móti framlög til þess að tryggja íslenskukennslu, aukna aðstoð við börn í skólum og fara í enn frekari samfélagsfræðslu sem ýtir undir það að fólk sem hér fær vernd verði virkari samfélagsþegnar í íslensku samfélagi. Í skilvirkninni felst nefnilega einnig mannúð og við eigum ekki að láta fólk bíða mánuðum eða jafnvel árum saman eftir niðurstöðu sinna mála. Með því tökum við enn betur utan um þá sem eru í leit að og þá sem fá vernd hér á landi.

Virðulegi forseti. Málefni útlendinga taka sífelldum breytingum. Við munum þurfa að taka hér málið aftur til umræðu í því skyni að grípa enn þá betur utan um málaflokkinn og ég ítreka að það skal fyrst og fremst ávallt vera með skilvirkni, mannúð og mannréttindi í huga. Lög um málefni útlendinga verða að vera í sífelldri endurskoðun eftir því sem aðstæður í heiminum og alþjóðasamfélagið tekur breytingum. Við erum bundin af alþjóðasamningum um málefni flóttafólks og þeir samningar eru hafðir til hliðsjónar við allar þær breytingar sem við gerum á málaflokknum. Við hljótum að vera sammála um að við viljum taka vel á móti þeim sem hingað leita og hafa þar innviði, stuðning og kerfi sem virkar í þágu samfélagsins alls. Þetta frumvarp er liður í því að styrkja þær stoðir í íslensku samfélagi.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði til nokkrar breytingar á því frumvarpi sem lagt var fram af hæstv. dómsmálaráðherra. Þær breytingar eru til þess fallnar að auka inngildingu einstaklinga sem hér sækja um og fá alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd. Meiri hlutinn leggur mikla áherslu á að mannréttindi verði höfð að leiðarljósi í meðferð mála er varða fólk í leit að vernd hér á landi. Fjölskyldusameiningar eru einnig gífurlega mikilvægur þáttur í því að inngilding einstaklinga sem hér fá vernd geti að fullu átt sér stað. Því eru lagðar til breytingar á því ákvæði í því skyni að koma til móts við þá sem virkilega leggja sig fram við að verða hluti af íslensku samfélagi og auðga það þar á meðal með sinni menningu. Sú breyting sem er lögð til á þessu fyrirkomulagi fjölskyldusameininga er til bóta og hvetur til þess að fólk leggi strax sitt af mörkum til samfélagsins því að það er jú vissulega ein af okkar grunnþörfum sem manneskja að vera þátttakandi í samfélaginu og hafa hlutverk.

Virðulegur forseti. Verndarkerfið er neyðarkerfi ætlað fólki sem óttast um líf og heilsu sína og öryggi. Nauðsynlegt er að tryggja að umsóknir þeirra einstaklinga sem hingað leita og eru í raunverulegri þörf fyrir vernd gegn ofsóknum fái vandaða og skjótvirka meðferð og að þeir komist fyrr út úr umsóknarferlinu og geti aðlagast okkar íslenska samfélagi og göfgað það með sinni menningu. Það er markmiðið og við hljótum að vera sammála um það.