154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Jú, svo sannarlega. Það hafa verið gerðar úttektir á því hvers vegna fólk leitar þangað sem leitar. Það er mjög fátt sem bendir til þess að það sé í rauninni einhver munur í regluverkinu sem ræður úrslitum þar. Það getur oft verið einn þáttur af mörgum en það getur jafnvel verið þáttur sem byggist á einhverri tómri vitleysu. Það fara alls konar sögur í gang. Það er ýmislegt sem getur valdið því að einstaklingar telja sig eiga meiri möguleika á einum stað en öðrum. Hins vegar þegar ég var starfandi talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd þá spurði ég mína skjólstæðinga gjarnan að þessu. Ég spurði þá oft: Hvers vegna Ísland? Það var algengast að þau segðu, það var tvennt sem var algengast: Þið virðið mannréttindi. — Eigum við að hætta því? Það er greinilega segull. Og annað var: Þið eruð svo fá. Mig grunaði að ykkur vantaði fólk. Og þriðji segullinn var atvinnutækifæri. Það eru mikil atvinnutækifæri. Ókei, ég get ímyndað mér að það sé þörf á sýrlenskum veitingastað. Þið eruð örugglega ekki með neinn sýrlenskan veitingastað. Fínt að fara til Íslands. Nóg af sýrlenskum veitingastöðum í Þýskalandi.

Annað sem ræður því svolítið hvert einstaklingar fara — og að ég held umfram annað, en ég er í sjálfu sér svolítið bara að giska á, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn, hvað það er sem veldur. En þetta hefur þó komið fram í úttektum, það er að fólk fer þangað þar sem það er fleira fólk af þjóðerni þess. Það er bara vegna þess að það eru tengsl, það þekkir til: Einhver vinur minn sagði mér að það væri gott að vera á Íslandi. Félagi minn sagði mér að vera þarna. Þannig að það er gríðarlegur munur á milli Evrópuríkja, demógrafían er svakalega ólík á milli ríkja og það skýrist örugglega að mörgu leyti af þessu, ekki ólíku regluverki. Til dæmis koma Palestínumenn mikið til Íslands, ekki að undra vegna þess að við erum t.d. fræg fyrir að hafa veifað palestínska fánanum í Eurovision. Við vorum ein fyrsta þjóðin (Forseti hringir.) til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og hér búa Palestínumenn, nokkuð margir. (Forseti hringir.) Þannig að það er kannski ekkert skrýtið og við eigum ekkert að vera leið yfir því. Við eigum að fagna því ef fólk vill koma og búa á Íslandi.