154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Hann misskildi allrækilega það sem ég var að segja. Ég var ekki að tala um að það væri ekki álag á innviði. Ég var að tala um að það væru vanræktir innviðir, það væri mikið álag á þá. En megnið af því álagi sem til er komið vegna útlendinga er ekki vegna hælisleitenda heldur vegna annarra. Stærstur hluti hælisleitenda er fólk frá Úkraínu þannig að við höfum samþykkt viðbótarálag á innviðina vegna þess að við viljum styðja fólkið sem kemur frá Úkraínu. Það er það sem ég er að tala um. Ég er að tala um að þessi tiltekni fjöldi sem alltaf verður andlag verstu umræðunnar hérna í samfélaginu og gerður ábyrgur fyrir því að hér sé heilbrigðiskerfið komið að fótum fram og jafnvel skólakerfið líka — grundvallarskýringin á þessu er auðvitað sú að þessi ríkisstjórn sem situr í landinu hefur ekki byggt upp þessa innviði þannig að þeir þoli allan þann fjölda útlendinga sem kemur hér að stærstum hluta frá EES en að minnstu leyti í gegnum hælisleitendakerfið. Það er verið að tala um fjöldann frá 2019 og setja einhvern samjöfnuð við það sem er á Selfossi eins og við heyrðum í ræðu hv. þingmanns. Það er hægt að leika sér með tölur fram og til baka. Helmingurinn af þessu fólki eða næstum því helmingurinn af þessu fólki er fólk sem við höfum verið að bjóða velkomið frá Úkraínu. Stór hluti af þessu fólki er líka fólk sem kom hingað vegna þess að kærunefnd útlendingamála breytti framkvæmdinni gagnvart Venesúela eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði jú talað mikið um að það þyrfti að taka vel á móti fólki frá Venesúela og við þekkjum það auðvitað úr utanríkisráðherratíð hæstv. ráðherra sem þá var Guðlaugur Þór Þórðarson. Við getum haldið áfram að leika okkur með tölur. Er það eðlilegt að við, eitt ríkasta land í heimi, sem berum okkur gjarnan saman við Norðurlöndin og viljum gera allt jafn vel og Norðurlöndin, ef við hefðum tekið frá upphafi á móti margfalt færri flóttamönnum heldur en hin Norðurlöndin, margfalt færri? Það er vissulega búið að vera meira álag á okkur núna á allra síðustu árum en ef við skoðum tölfræðina eitthvað aftur í tímann (Forseti hringir.) þá hallar verulega á Íslandi í þeirri tölfræði. Við eigum að búa vel að því fólki sem hingað kemur. Við eigum að sýna mannúð og mildi. Það er ekki þannig að við séum að reyna að taka á móti öllum í heiminum. (Forseti hringir.) Regluverkið þarf að vera skýrt. Það er of mikill kostnaður í kerfinu. Við eigum að reyna að auka skilvirkni en það er ekki sama hvernig það er gert.