154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er greinilega eitthvað viðkvæmt hjá formanni allsherjarnefndar. Ef það er einhver skýr stefna, finnst mér, af hálfu Sjálfstæðisflokksins þá er það að elta svolítið Miðflokkinn í hans vegferð þegar kemur að útlendingamálum. Þarf ég að segja þetta og endurtaka aftur? Í fyrsta lagi: Við viljum skilvirka, mannúðlega og raunsæja stefnu í útlendingamálum. Við erum búin að ítreka þetta en enn og aftur kemur í ljós að forysta Sjálfstæðisflokksins er ekki að hlusta á það sem er verið að segja, kannski út af því að það á einmitt að spila á öfgarnar, reyna að koma þannig fram að ala á óvissu, ala á tortryggni og reyna að gera fólki upp skoðanir. Ég er bara orðin þreytt á því. Ég er orðin þreytt á því að Sjálfstæðisflokkurinn komi og þykist ekki hafa komið nálægt útlendingamálum, sem er búinn að hafa stjórn á þeim síðastliðin ellefu ár en gengur ekki betur en svo að það er verið að smámjatla inn breytingum. Ég ítreka, sumum mjög skynsamlegum, öðrum ekki. En ég ætla ekki að taka þátt í því að setja inn einhverjar ómannúðlegar greinar eins og verið er að draga fram þegar kemur að fjölskyldusameiningu. Við eigum alveg eftir að taka þá umræðu mun betur og mun dýpra. Ég er sannfærð um að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði beitt sér fyrir einhverju samtali, einhverjum samhljómi frekar en að hugsa bara um það hvernig hann getur haldið í ráðherrastólana, þá værum við með mun betra umhverfi hér í útlendingamálum heldur en við erum með akkúrat núna.

Viðreisn vill gera allt til þess að koma hér upp samfélagi sem er mannúðlegt, sem tekur vel á móti fólki en gerir það líka þannig að við áttum okkur á því að það er ekki hægt að gera allt. Við getum ekki tekið á móti öllum, ég er búin að segja það og ítreka það hér í þessum stól. Það sem ég segi líka að er skynsamlegt og er sátt við í breytingu frá Samfylkingunni er að það er verið í rauninni að lögfesta öll ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er verið að gera þetta skýrara og fara í átt að Norðmönnum. (Forseti hringir.) En allt í einu núna má ekki fara í átt að Norðmönnum. Núna í þessu skrefi (Forseti hringir.) ætlar ríkisstjórnin að gera eitthvað annað. En að öðru leyti: Viðkvæm ákvæði í 2. mgr. 36. gr. (Forseti hringir.) Mér finnst það allrar athygli vert en ég vil fara þá leið og mun samþykkja þá leið sem lögð hefur verið til af hálfu 2. minni hluta.