154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í þessu frumvarpi lá fyrir að gera kröfu um það að fólk væri búið að endurnýja dvalarleyfin sín áður en það gæti óskað eftir fjölskyldusameiningu og það þýðir í rauninni tveggja ára biðtími. Önnur Norðurlönd hafa nálgast þetta með mismunandi hætti. Danir hafa sett inn árafjölda plús ákveðnar inngildingarkröfur. Önnur Norðurlönd hafa almennt verið með slíkar kröfur sem þýðir að það mun taka einhvern tíma þar til viðkomandi getur óskað eftir fjölskyldusameiningu. Þær breytingar sem við leggjum hér til eftir umfjöllun um málið er að auk umönnunarundanþágunnar verði sett inn undanþága er lýtur að því að þeir sem hafa verið hér í eitt ár, hafa verið virkir á vinnumarkaði og hafa þar af leiðandi framfærslu og kunni eitthvað fyrir sér íslensku geti óskað eftir fjölskyldusameiningu fyrr. Hér er um hvata að ræða, svona inngildingarhvata. (Forseti hringir.) Ég treysti því reyndar að í framtíðinni munum við gera fleiri slíkar breytingar á (Forseti hringir.) útlendingalöggjöfinni okkar, þ.e. að við séum með inngildingarhvata þegar um er að ræða að óska eftir (Forseti hringir.) dvalarleyfum hér á landi.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir aftur á ræðutímann í atkvæðaskýringum.)