154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[12:27]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fá að tjá mig um þetta mál. Ég tel bara mjög eðlilegt að mati umboðsmanns barna sé svarað í nefndaráliti. Ég get ekki annað sagt að að ég er ósammála því að breytingarnar taki ekki með fullnægjandi hætti mið af réttindum barna samkvæmt barnasáttmálanum. Ég tel þetta ágætisinnlegg hjá umboðsmanni en ég veit ekki hversu mörgum dómum eða álitum umboðsmanns Alþingis ég hef verið ósammála. Ég hef sagt þá skoðun og fært rök fyrir því. Ég tel að það séu færð ágætisrök fyrir því í þessu nefndaráliti meiri hlutans, sem ég er reyndar ekki á. Ég tel líka að við séum að ganga skemur varðandi fjölskyldusameiningar en önnur Norðurlönd, það er það sem við erum að gera. Og ef við erum að brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, hvað þá með hin Norðurlöndin? Þau eru ekki að gera það og við erum ekki að gera það. Við erum ekki með kröfu um inngildingu eftir tvö ár. Hin ríkin eru öll með kröfur um inngildingu. Ég tel mjög eðlilegt að þingið hafi sína skoðun á málinu og umboðsmaður barna líka. Við megum alveg rökræða það.