154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

listamannalaun.

937. mál
[12:29]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með þessum breytingum á lögum um starfslaun listamanna er Alþingi sammála því að íslenskar listir varðveita auð sem við ætlum að styðja við og sækja fram á því sviði. Ég er virkilega þakklát hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir hennar störf og einnig þingheimi fyrir það brautargengi sem ég tel að hann muni veita þessu máli. Breytingar eru veigamiklar. Þær fela í sér fjölgun á starfslaunum listamanna ásamt tveimur nýjum sjóðum. Annars vegar kemur nýr sjóður fyrir kvikmyndahandritshöfunda, en kvikmyndaiðnaðurinn hefur vaxið mikið á síðustu árum, og svo er ný sjóður sem heitir Vegsemd sem ætlaður er okkar kæra eldra listafólki. Mér þykir einstaklega vænt um þann nýja sjóð sem er löngu tímabært að setja á laggirnar. Þessar breytingar þýða fleiri íslenskar bækur, aukin íslensk tónlist, meira af íslenskri myndlist, fleiri íslenskar kvikmyndir, auknar sviðslistir og meira af íslenskri hönnun.