154. löggjafarþing — 131. fundur,  22. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[23:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur verið ákall eftir kerfisbreytingu í örorkulífeyriskerfinu í ár og áratugi. Í dag getum við með atkvæði okkar ákveðið að marka þáttaskil í réttindabaráttu örorkulífeyrisþega og fatlaðs fólks, þáttaskil hvað varðar kjör öryrkja, þáttaskil í réttindabaráttu vinnandi fólks. Í dag getum við gert öryggisnet velferðarkerfisins þéttara og sanngjarnara. Í dag getum við fagnað réttlátara kerfi, réttlátara samfélagi, samfélagi þar sem við erum öll með og skiptum öll máli. Ég vil fá að þakka hv. velferðarnefnd fyrir mjög góða vinnu og sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur. Í mínum huga er mikilvægt að ná samstöðu um jafn stórt og veigamikið mál og þetta. Við eigum að vera stolt af árangursríkri samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu um mál sem skiptir jafn stóran hóp landsmanna máli.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu stóra skrefi í réttindabaráttu öryrkja og fatlaðs fólks og þakka fyrir víðtækan stuðning við málið hér á Alþingi.