155. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[18:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningar sem beint er til mín. Ég vil fyrst vekja máls á því sem hv. þingmaður nefndi varðandi brottfararúrræði. Það er rétt, og er í þingmálaskrá ráðherra, að ég mun leggja fram fyrir áramót frumvarp sem heimilar hér brottfararúrræði. Þetta er innleiðing og við erum skyldug til þess samkvæmt Schengen-samstarfinu sem við erum þátttakendur í að uppfylla þessa skyldu okkar. Við erum eina landið í Schengen-samstarfinu sem hefur ekki gert það. Ég tel þetta úrræði sýna meiri mannúð en nú er. Nú er verið að beita í rauninni hörðustu aðgerðum sem hægt er varðandi þá einstaklinga sem ber að yfirgefa landið. Þeir eru fluttir í öryggisfangelsi, gæsluvarðhaldsfangelsi að Hólmsheiði sem ég tel ekki ásættanlegt og við höfum fengið gagnrýni fyrir. Mig langar sömuleiðis að fá að nefna að kostnaður við brottfararúrræðið verður töluverður og það er rétt sem hv. þingmaður segir að hann er ekki kominn inn í fjármálaáætlun en ég vænti þess að svo verði ef frumvarpið verður að lögum. Ég vil einnig fá að geta þess að það er engin aðhaldskrafa á lögregluna á tímabili fjármálaáætlunar.