155. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[18:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að ítreka það sem ég sagði áðan, svo það fari ekki á milli mála, að ég tel að kaup lögreglu á búnaði auki ekki óöryggi heldur sé til þess að tryggja öryggi í samfélaginu og tryggja líka öryggistilfinningu meðal borgaranna. Nú er það svo að íslensk lögregla hefur verið óvopnuð nánast alla tíð og hefur verið það fram á þennan dag en samt sem áður höfum við séð aukningu í ofbeldi, þannig að það er ekki hægt að segja að það sé orsakasamhengi á milli vopnaburðar eða vopnleysis lögreglu hér á landi og aukins ofbeldis og hörku sem við erum að sjá í samfélaginu. Ég hafna því sömuleiðis sem hv. þingmaður nefndi hér, að lögreglan beiti valdi gegn borgurunum. (Forseti hringir.) Lögreglan beitir valdi gegn einstaklingum sem fara gegn lögum eða sýna af sér hegðun sem getur skaðað viðkomandi eða aðra. (Forseti hringir.) Lögreglan á Íslandi hefur farið mjög varlega í valdbeitingu í sínum störfum.