155. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[18:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna sem til mín er beint. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að lengi býr að fyrstu gerð. Það er ólýsanlega sárt og erfitt að upplifa það að nú í íslensku samfélagi erum við að sjá merki þess og teikn og sjáum það raungerast að það er eitthvað í okkar samfélagsgerð, eitthvað í okkar samfélagi sem veldur því að börnunum okkar líður illa. Þeim líður það illa að þau telja sig þurfa að verja sig, grípa til ofbeldis og til vopna. Þess vegna segi ég: Lengi býr að fyrstu gerð. Ég hef nefnt í viðtölum að það er ekki hægt að horfa á þennan vanda með einum gleraugum eða í gegnum einn sjónauka, það þurfa allir að koma að því. Það er á ábyrgð foreldra, heimilanna, skólanna, félagsmiðstöðvanna, íþróttafélaganna, lögreglunnar og okkar allra að komast inn í þennan kjarna, að lengi býr að fyrstu gerð, að við sköpum umhverfi í íslensku samfélagi þannig að börnin okkar vaxi úr grasi við öryggi og verði sjálfstæðir og heilbrigðir einstaklingar. Ég vil fá að segja að bæði í fyrra og á þessu ári hafa verið stigin stór skref í þá átt að efla samfélagslöggæslu og fjölga þeim lögreglumönnum sem sinna þeim störfum. Það hefur sýnt sig í löndunum í kringum okkur, ég nefni Svíþjóð í því sambandi, að þar er talið að það mikilvægasta sem nú er gert þar í landi sé að efla samfélagslöggæslu, að lögreglan sé úti í hverfunum og í skólunum, byggi upp traust og tengingu við börnin okkar til að styðja við þau í sínu daglega lífi.