155. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[18:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í febrúar á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin heildarsýn í þessum málaflokki með það að markmiði að fækka umsóknum um vernd, að stytta málsmeðferðartímann en einnig að auka skilvirkni í brottflutningi þeirra einstaklinga sem ekki fá vernd hér á landi. Það hefur verið algerlega fordæmalaus fjölgun eða umsóknarfjöldi hér á landi á síðustu tveimur árum, sérstaklega á árunum 2022 og 2023. Í kerfinu hefur því myndast stífla og til að losa um hana var ákveðið að setja auknar fjárheimildir í að vinna niður þann málahala sem hefur sérstaklega verið hjá Útlendingastofnun en ekki síður hjá kærunefnd útlendingamála. Einnig var ákveðið að fjölga starfsmönnum í heimferðadeild ríkislögreglustjóra, sem áður var nefnd stoðdeild. Þar störfuðu um tíu einstaklingar en þeir eru núna um 40 og sinna því mikilvæga starfi að vera í góðum samskiptum við þá einstaklinga sem hafa fengið synjun hér á landi og ber að yfirgefa landið. Það hefur skipt sköpum að þar hafa þau unnið mjög vel að sjálfviljugri heimför sem er það sem við viljum stuðla að, að einstaklingar sem hér fái synjun fari sjálfviljugir til síns heima.