155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég undirstrika það að við erum reiðubúin. Þetta er ekki flokkspólitískt mál, þetta er þverpólitískt mál, þetta er samfélagslegt mál. Við berum öll ábyrgð á að gera það sem í okkar valdi stendur.

Ég hélt hér ræðu varðandi stefnuræðu forsætisráðherra. Ég beindi sjónum mínum í upphafi að vanlíðan, depurð og kvíða ungs fólks. Ég hef oft haldið ágætar ræður en ég hef aldrei fengið jafn mikil viðbrögð eða jafn mörg skilaboð og eftir þá ræðu með dæmum og ábendingum um það til að mynda að Stuðlar eru lokaðir á sumrin, um álagið á BUGL. Það eru hér þrjú eða fjögur mál sem blasa við mér þar sem barnavernd hefur ekki ráðrúm til þess að fylgja eftir vímuefnaneyslu 14 ára drengs, ofbeldi inni á heimili. Ég er búin að benda á að lögreglufólk er að fara ítrekað inn á sama heimili, til sömu fjölskyldu, þar sem börn eru fyrir. Það er þetta ákall að við erum að missa (Forseti hringir.) börnin okkar af því að þegar upp er staðið er eins og kerfin séu ekki að tala saman. (Forseti hringir.) Ég vil þess vegna hvetja hæstv. ráðherra til að vekja samráðherra sína sem bera svo mikla ábyrgð á öðrum málaflokkum sem tengjast velsæld og farsæld barna og fá þá til að tala saman. (Forseti hringir.) Þetta snýst ekki um það hver fær skærasta ljósið á blaðamannafundum.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)