155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

aðgerðir stjórnvalda í geðheilbrigðismálum.

[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það fylgir því ábyrgð að sitja í ríkisstjórn og það er ábyrgðarhluti að sýna af sér andvaraleysi, ekki síst þegar kemur að svona stórum málum. Ég er búin að heyra hér að það er verið að skýla sér á bak við mönnunarvanda. Mönnunarvandi er ekki eitthvað í heilbrigðisþjónustunni sem fellur bara af himni ofan. Það er bara ekki þannig. Mönnunarvandi er mannanna verk og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að skila heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðiskerfinu okkar þannig að það sé tekið utan um fólkið, bæði starfsfólkið en ekki síður fólk sem er að kalla eftir þjónustu. Börn eiga ekki að vera á biðlistum. Ég hélt að við værum sammála um það en biðlistar á starfstíma þessarar ríkisstjórnar, biðlistar barna eru að lengjast, samanber athugasemdir og ábendingar umboðsmanns barna. Það er eitthvað bogið hjá þessari ríkisstjórn, við vitum það og ég bið hana um að beina kröftum sínum í þágu fólksins en ekki bara einhverra innanmeina innan ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Ég bið líka þessa ríkisstjórn að fara einu sinni að hugsa til framtíðar (Forseti hringir.) af því að það er framtíð að fjárfesta í forvörnum, (Forseti hringir.) fjárfesta í auknu aðgengi ungs fólks að þjónustu vegna andlegrar líðanar. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. ríkisstjórn að fara að hugsa til framtíðar og taka betur um börnin, hún hefur stuðning okkar til þess. (Forseti hringir.) Við samþykktum þetta mál öll samhljóða hérna. (Forseti hringir.) Farið nú og fylgið lögunum. Það eru lög í landinu, farið og fylgið þeim.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)