155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

aðgerðir stjórnvalda í geðheilbrigðismálum.

[13:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður geti staðfest með gögnum allt það sem viðkomandi sagði hér og við getum tekið málefnalega umræðu um það í staðinn fyrir að vera með stórkarlalegar yfirlýsingar. Það er rétt að það er ábyrgðarhluti að sitja í ríkisstjórn. Það er ábyrgðarhluti að vera kjörinn fulltrúi. Það er ábyrgðarhluti að standa hér og útmála samfélagið miklu lakara og verra heldur en það er. Það er ábyrgðarhluti hvernig við tölum hvert og eitt okkar og hvernig við tölum til hvers annars. Það er ábyrgðarhluti. Þess vegna skiptir máli að horfast í augu við staðreyndirnar, sem við erum að gera. Varðandi mönnun þá höfum við, sérstaklega þessi ríkisstjórn, verið að horfa á það hvernig við getum fjölgað tilteknum heilbrigðisstéttum með breyttum áherslum. Við höfum verið að horfa á það hvernig við getum hleypt sérfræðingum inn í landið frekar heldur en áður. Við höfum verið (Forseti hringir.) að horfa til þess að leysa fullt af þeim verkefnum sem við blasa og þar erum við að sjálfsögðu að horfa til framtíðar.