19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ari Jónsson:

Eg skal ekki vera langorður; eg vildi aðeins segja örfá orð út af breyt.till. á þskj. 511, sem eg hefi komið með. 1. breyt.till. fer fram á að hækka fjárveitinguna til fjallvega um 300 kr. fyrra árið. Ástæðan til að eg kom með þessa breyt.till. var sú, að Strandamenn óskuðu að fá 300 kr. styrk til að varða Trékyllisheiði, en þar sem framsm. nefndarinnar hefir fullyrt að þessi styrkur muni fást af fé því, sem þegar er ætlað til fjallvega, tek eg tillögu mína aftur.

Þá er 2. breyt.till. um fjárveitinguna til vegarins úr Hrútafjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn. Háttv. 4. kgk. gat þess, að þessi vegur mundi hvorki vera þjóðvegur né sýsluvegur, og líklega ekki einu sinni hreppsvegur. En það má hann heyra, háttv. 4. kgk., að þessi vegur er hvorki meira né minna en þjóðvegur. Það getur háttv. 4. kgk. sannfært sig um með því að fletta upp í lögum um vegi frá 22. nóvbr. 1907, 3. gr. Þar er talinn meðal þjóðvega »vegurinn frá Hrútafjarðará, um Borðeyri út með Hrútafirði, um Stikuháls til Bitrufjarðar og þaðan að Gilsfjarðarbotni«. Það er ekki rétt orðað, að kalla veginn póstveg, eins og gert er í tillögunni, en til þess voru sérstakar ástæður. Frá Bitrufjarðarbotni liggur vegurinn yfir Snartartunguheiði að Gilsfjarðarbotni. En nú vilja sýslubúar breyta þessu og leggja hann um Krossárdal. Ef hann verður lagður um Krossárdal, þarf upphleyptan veg um langt svæði, sem kostar allmikið fé. Síðasta þing mun hafa tekið vel undir styrk til þessa vegar, og fyrverandi ráðherra, sem var á ferð um veginn í sumar, taldi sjálfsagt að veita fé til vegar um Krossárdal. Þar sem bæði þing og ráðherra hafa álitið svo, og sýslubúum er það mjög mikið áhugamál og nauðsynjamál að fá veginn, fanst mér sjálfsagt að koma með þessa tillögu. En eg fór ekki fram á meira en 2000 kr. að svo stöddu til þessa vegar, bæði vegna undirtekta fjárlaganefndar, og af því eg fer líka fram á fjárveitingu til tveggja brúa, og áleit að þingið mundi fremur sinna þeirri ósk, ef eg væri ekki heimtufrekur til vegarins. Þær tvær ár, sem gert er ráð fyrir að verði brúaðar, ef styrkur fæst, eru Prestbakkaá og Víðidalsá. Prestbakkaá er brýn þörf á að brúa; hún liggur á mjög fjölförnum vegi og er oft illfær. En sérstaklega ber brýna nauðsyn til að brúa hina ána, Víðidalsá. Hún er mjög hættuleg og hafa farist menn í henni; síðast fórst piltur í henni í fyrra og oft hafa menn verið komnir hætt í þeirri á. Hún er straumhörð og grýtt, og mikil í vöxtum. Brúarstæðið liggur nálægt kauptúninu Hólmavík, og er eigi óhugsandi, að kaupmenn þar leggi dálítið til brúarinnar. Þessi brú mundi ekki einungis koma sýslubúum að gagni, heldur einnig þeim Barðstrendingum sem sækja til Hólmavíkurkaupstaðar. Eg vona að háttvirt deild verði við óskum Strandamanna í þessu; þeir hafa ekki verið heimtufrekir hingað til.