05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

123. mál, Guðbrandsbiblía

Umboðsmaður ráðherra (Klemens Jónsson):

Eg skal votta með háttv. flutnm. (J. Þ.) að þetta eintak af Guðbrands-biblíu var hið prýðilegasta að ytra útliti. Eg sá það oft á Akureyri, er það lá þar frammi til sýnis sem hver annar söluvarningur, hverjum, er kom inn á veitingahúsið. Það er enginn vafi á, að þessi biblía hefir verið seld í algerðu heimildarleysi. Það geta því allir verið sammála um, að tilgangur flutningsmanns (J. Þ.) með þessa þingsályktunartillögu sé góður; hitt er annað mál, hvort hægt sé að ná bókinni aftur, eða hvort ekki sé á því svo miklir erfiðleikar, að það sé ógerandi. Háttv. flutnm. (J. Þ.) kom ekki með neitt ráð, eða benti á neitt úrræði í þessu máli, en ef hann telur það svo auðvelt, sem ætla má of orðum hans, þá hefði hann átt að benda stjórninni á einhverja auðvelda leið. Ef til vill hefir hann trúað stjórninni bezt til að finna heppilega leið í þessu máli (Jón Þorkelsson: Já!) og skal eg þá leyfa mér að skýra frá þeim ráðum eða leiðum, sem eg tel að fara megi í máli þessu.

Fyrsta leiðin er sú, að stjórnin hér snúi sér til dönsku utanríkisstjórnarinnar, og hún svo aftur til sendiherra Dana í Lundúnum, sem með diplómatískri málaleitun mundi reyna að fá erindi þessu framgengt. Þessa leið má auðvitað fara, þótt hún hins vegar sé næsta umsvifasöm. En fari nú svo, að hlutaðeigandi kona vilji ekki skila biflíunni, henni annað hvort skipast hugur, er hún sá, hvílíkur dýrgripur biflían væri, eða þá bókin sé komin í annara hendur og þeir vilji ekki af henni láta — hvað þá? Þá er sú leið ekki að neinu gagni.

Önnur hugsanleg leið væri það að senda mann til Lundúna gagngert til að hafa uppi á bókinni. Það væri nú reyndar nokkuð kostnaðarsamt, og ef honum færi á sömu leið, að viðkomandi vildi ekki láta bókina af hendi, þá værum vér engu nær að svo búnu. Gangi þetta alt ekki sjálfviljuglega, eru því engin önnur úrræði en höfða mál.

Er það þá, vil eg leyfa mér að spyrja háttv. flutnm., meining hans að höfða eigi mál út af þessu? Það verður líka örðug leið, því eg skal leyfa mér að geta þess, að í fyrsta lagi er öll málssókn og málflutningur í Englandi afardýr, svo að það mundi hafa mikinn kostnað í för með sér, því að byrja yrði á því að leggja fram svo og svo stóra upphæð, sem tryggingarfé handa stefnda, ef málið tapaðist, en svo er í öðru lagi þess að gæta — og það er aðalmergurinn í þessu máli — að það er mjög tvísýnt, að mál þetta ynnist fyrir enskum dómstólum, Eftir íslenzkum og dönskum lögum mundi krafa sú ná fram að ganga, en eftir þýzkum og frönskum lögum er eignarrétturinn mjög takmarkaður með tilliti til seinni góðtrúa kaupenda; þannig missir eigandi rétt sinn til afturkröfu, ef lausnarfé er selt við opinbert uppboð eða á markaði, og kaupandi er í góðri trú; hversu það er eftir enskum lögum, er mér ekki algerlega kunnugt, en það er þó fyrirfram ekki ólíklegt, að þau í þessu líkist fremur þýzkri og franskri löggjöf en norrænni, en ef svo er, þá er málið tapað, því að það er eftir enskum lögum en ekki íslenzkum, að málið yrði dæmt, og þar sem það verður upplýst, að bókin hefir legið til sölu vikum saman á opinberum veitingastað, þá er ekki ólíklegt, að hin góðkunna heiðurskona, sem keypti biblíuna, eða erfingjar hennar, eða síðari kaupendur geri það gildandi, að svofeld sala líkist sölu á uppboði eða markaði, og dómstólarnir fallist á þá skoðun. Vilji konan aftur á móti skila bókinni góðfúslega, þá þarf eigi svona hátíðlega þingsályktun, nóg að leiða athygli stjórnarinnar að því.

Þegar málið þannig er rakið út í yztu æsar, er það fyrirsjáanlegt, að árangurinn muni ekki verða fjarska mikill. Þó að tillaga þessi verði samþykt, þá er þó líklegast, að hún nái ekki tilgangi sínum. Eg vil því leyfa mér að spyrja háttv. flutnm. (J. Þ.) hvort hann ekki er fús til — eftir að hafa fengið þessar upplýsingar — að taka tillöguna aftur.