03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

55. mál, dánarskýrslur

Gunnar Ólafsson:

Eg gat ekki verið samdóma meiri hluta nefndarinnar um nauðsyn frumvarpsins og gagn það, er gæti orðið af lögunum, og hefi eg tekið fram ástæður fyrir því í nefndaráliti minni hlutans. Aðalástæðan á móti frumvarpinu er sú, að skýrslurnar mundu ekki verða ábyggilegar.

Það er ekki nóg að gefa út lög um að þessar og þessar skýrslur skulu gerðar; og það er meira að segja ekki nóg að lögunum sé fylgt; skýrslurnar geta verið óábyggilegar alt að einu, og þá koma þær ekki að neinu gagni. — Eg get nefnt dæmi þessu til sönnunar. Lögunum um skýrslur yfir alidýrasjúkdóma hefir verið fylgt að því leyti, að hreppstjórar heimta skýrslu hvers búanda um það á hreppaskilaþingi ár hvert, hvaða sjúkdóma hann hafi orðið var við í alidýrum og hve margar skepnur hann hafi mist úr þessari eða annari veiki. En þar sem það er víst, að bændur segja til þessa alment eitthvað út í loftið, vegna þess að þeir hafa litla eftirtekt veitt slíku, þá er það alveg víst, að á slíkum skýrslum er ekkert að byggja, hversu vel sem þær annars líta út á pappírnum. Gallinn á þeim er það, að það er ekkert á þeim að byggja, auðvitað af því að áhugann vantar og þekkinguna hjá fólkinu, þá þekkingu, sem útheimtist til þess að geta gefið réttar skýrslur. Líkt mundi verða um þessar dánarskýrslur. Að vísu kæmu áreiðanlegar skýrslur úr þeim sóknum, sem læknir býr í. En hvaða gagn gæti verið af því, að fá ábyggilegar skýrslur úr að eins 16 af hverjum 100 sóknum landsins? Prestar eiga að votta um dauðamein manna í 84 af hverjum 100 sóknum, og allar þær skýrslur yrðu auðvitað alveg óábyggilegar, því að prestar eru ekki öðrum færari til að gefa slík vottorð.

Eins og nú stendur gefa læknar skýrslu um veikindi þau, sem koma fyrir í héruðum þeirra, og þeir verða varir við; leiði veikin til dauða geta þeir þess í skýrslum sínum. Þær skýrslur koma að töluverðu gagni, því að yfirleitt mun hverjum lækni vera nokkum veginn kunnugt um þá sjúkdóma, sem koma fyrir í héraðinu. En ef frv. þetta verður að lögum, getur vel verið, að þeir leiði þetta hjá sér og kasti áhyggjum sínum að þessu leyti á prestana í öllum sóknum nema þeim, sem þeir búa í sjálfir. Gæti þá fremur orðið afturför að lögunum en framför. — Auk þess mundu lögin auka störf læknanna og baka aðstandendum hinna látnu kostnað, hvorttveggja að gagnslausu. Og sér hver maður, hver fjarstæða það er, að búa til lög, sem hafa kostnað og umstang í för með sér, og eru þó alveg gagnslaus eða jafnvel til hins verra.

Það þarf ekki ný lög til þess að fá miklu meiri vissu um dauðamein manna heldur en getur fengist eftir þessum lögum. Það þarf ekki lög til þess að fá presta til að geta um dauðamein manna í sóknum sínum; þeir mundu gjöra það eftir tilmælum landlæknis eða landstjórnarinnar. Væru svo þær skýrslur bornar saman við skýrslur læknanna um sjúkdómana í umdæminu, þá tel eg víst, að nokkru nær mætti komast um það, hverjir sjúkdómar eru algengust banamein.

Háttv. framsögumaður talaði um nytsemi laganna. En eins og eg hefi gert grein fyrir, get eg ekki séð að hún sé fyrir hendi, því að lögin geta aldrei náð tilgangi sínum, eins og þegar er bent á. Þess vegna vil eg hiklaust leggja til, að deildin felli frumvarpið.