20.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Eg sá það glögt við byrjun umræðnanna, hver gallagripur frumvarpið er. Nú hefir málið skýrst betur við þessar umræður. Eg er hræddur um, að þegar ráðist er í þetta stórfyrirtæki, þá verði farin gamla leiðin til landssjóðs og hann beðinn að ábyrgjast lánið, sem bærinn þarf að fá sér til þess að koma verkinu í framkvæmd. Það er fyrirsjáanlegt, að bærinn getur þetta ekki á eigin spýtur. Háttv. framsögumaður (M. B.) tók það fram, að bærinn mundi leggja kostnaðinn fram í bráðina, og húseigendur mundu umliðnir um borgunina, svo að ekki leggja þeir peningana til um leið og verkið verður unnið.

Það er ekki tekið skýrt fram í 2. gr. frumv., hvað orðið »lóð« þýðir. Það er þó nauðsynlegt að fá fulla skýringu á því í lögunum, hvort það nær einnig til erfðafestulanda. Þau liggja ekki allfá að götum hér í austurbænum og víðar.

Mér þykir undarlegt, hve háttv. þm. Vestm. (J. M.) er æstur á móti borgarafundum. Sagði hann, að húseigendur mundu verða illa úti á þeim fundum, því hinir yrðu fleiri, leigjendurnir, og mundu þeir heimta, að öllum kostnaðinum yrði dembt á húseigendurna. — Þetta er mesti misskilningur. Leigjendur eru ekki svo grunnhygnir, að þeir viti ekki, að sá halli, sem húseigendur yrðu fyrir, mundi koma niður á leigjendunum, af því að húsaleigan yrði þá hækkuð að því skapi. Einhverjar veigameiri ástæður ætti að bera fram fyrir því, að farið hefir verið með mál þetta algerlega á bak við borgara bæjarins, mennina, sem eiga þó á endanum að bera allan kostnaðinn, sem af því flýtur.

Það er ekki mikið úr því gerandi, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði um það, að þetta frumv. hefði fengið betri undirbúning en flest önnur mál hér á þinginu um langan tíma. Frumvarpið ber þess bezt vitni sjálft, hversu til þess hefir verið vandað. Og í þessu sambandi má benda á það, að mál geta verið vanhugsuð, þótt þau hafi fengið mikinn undirbúning. Svo var t. d. um dánarskýrslufrumvarpið. Það var svo úr garði gert eftir margra ára undirbúning, að ef það hefði verið samþykt óbreytt, eins og það kom nú til deildarinnar, þá hefði í vissum tilfellum ekki verið hægt að jarðsetja menn nema með lagabroti. Loks gat þó nefndin lagað það svo, að við tuttugustu umræðu í því máli hér á þinginu tókst að bæta þann annmarku.

Eg legg nú til, að frumvarp það, sem hér liggur fyrir, verði felt eða tekið út af dagskrá.